Margir hafa sett sig í samband við félagið sem er að byggja íbúðir á Frakkastíg 1 en gert er ráð fyrir að íbúar verði fluttir inn í febrúar nk.
Framkvæmdafélag Arnarhvols byggir húsið fyrir Iðu sem hafði sigur í samkeppni um grænt húsnæði framtíðarinnar á lóðinni. Húsið er teiknað af Arnhildi Pálmadóttur arkitekt ásamt dönsku arkitektunum Lendager.
Björt Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Iðu segir verið að steypa upp sjöttu hæðina en húsið verður sjö hæðir. Hæsti hluti hússins snýr í norður, til móts við Sæbraut, en það stallast niður til suðurs, eins og nú er komið í ljós. Fjórða til sjöunda hæð verða inndregnar. Íbúðirnar, alls tíu talsins, fara senn í sölu á almennum markaði.
Við byggingu hússins er lögð sérstök áhersla á að lágmarka kolefnisspor, sem birtist í allri nálgun og efnisvali.
Endurnýting í klæðningu
„Eins og lagt var upp með verður húsið að stórum hluta klætt að utan með endurnýttum vegriðum frá Vegagerðinni en á neðstu hæðum verður það klætt með steinum sem koma úr grunninum á þessu húsi. Steinarnir í klæðninguna eru unnir í steinsmiðju í Hafnarfirði sem heitir nú Invit en kallast í daglegu tali Grafa og grjót,“ segir Björt.
Á jarðhæð hússins verður atvinnurými með stórum bogadregnum gluggum. Það verður áberandi enda er mikil umferð um svæðið og húsið nærri Sólfarinu, einum mest sótta áfangastað erlendra ferðamanna við ströndina. Einnig má nefna að almennt eru ekki lifandi jarðhæðir í næsta nágrenni á Skúlagötu en þar eru íbúðaturnar.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í gær og í nýja Mogga-appinu.
Heimild: Mbl.is