Hundraða milljóna munur var á hæsta og lægsta tilboði í skógarhöggið í Öskjuhlíðinni.
Lægsta tilboðið var frá Tandrabrettum, 19.730.000 kr. Hreinir garðar ehf. buðu 142.544.287 kr. og Garðaþjónusta Sigurjóns átti hæsta tilboðið, 468.720.000 kr. eða 448.990.000 kr. hærra en lægsta tilboð. Ófullnægjandi tilboð bárust frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, sem gaf ekki upp verð, og frá Garðlist, sem bauð einungis tímagjald í verkið.
Reykjavíkurborg hafði gefið það út áður en útboðið fór fram að kostnaður vegna verksins myndi skipta einhverjum hundruðum milljóna króna. Einar Birgir Kristjánsson framkvæmdastjóri Tandrabretta segir verðið vera ásættanlegt og að hann muni vinna verðmæti úr trjánum. Hann hefur ekki tekið ákvörðun um hvernig timbrið verður unnið.
Heimild: Mbl.is