Home Fréttir Í fréttum Segja fyrrum samgönguráðherra og Vegagerðina hafa klúðrað PPP-leiðinni

Segja fyrrum samgönguráðherra og Vegagerðina hafa klúðrað PPP-leiðinni

78
0
Mynd: Austurfrett.is

Fyrrum formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis segir gjaldtöku á umferðarþungum vegum leiðina til að fjármagna endurbætur í vegakerfinu. Hann segir fyrrum samgönguráðherra og Vegagerðina hafa haldið rangt á spilum þannig ekki varð hægt að fara af stað í samvinnuverkefni eins og nýjan veg yfir Öxi.

Þetta var meðal þess sem kom fram á opnum fundi nýrrar forustu Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var á Egilsstöðum í fyrradag. Nýr formaður, Guðrún Hafsteinsdóttir, nýr varaformaður Jens Garðar Helgason og ritari flokksins, Vilhjálmur Árnason, eru þessa dagana á ferð um landið. Þau heimsóttu Austurland í gær og héldu opna fundi á bæði Egilsstöðum og Reyðarfirði.

Á fundinum á Egilsstöðum var talsvert spurt út í samgöngumál, meðal annars veg yfir Öxi og Fjarðarheiðargöng, en einnig Austfjarðagöng og Suðurfjarðaveg. Vilhjálmur hefur setið í umhverfis- og samgöngunefnd nærri samfellt frá árinu 2013, þar sem sem formaður 2021-23.

Leiðin að hafa gjaldheimtu á stofnleiðum

Hann lýsti þeirri skoðun sinni að gjaldtaka af umferðarþungum vegum, það er þeim sem liggja út frá höfuðborgarsvæðinu, séu leiðin til að fjármagna aðrar framkvæmdir í vegakerfinu, þar á meðal jarðgöng.

„Þingveturinn 2018-19 fór allur í að finna hvernig hægt væri að koma af stað vegum sem voru á dagskrá eftir áratugi. Leiðin var gjaldtaka á stofnbrautum. Við vildum gera eins og Færeyingar með þeirra jarðgöng. Þess vegna bjuggum við til hálfa einkafjármögnunarleið,“ sagði Vilhjálmur.

Áhætta á einkaaðila þýddi hærri fjármagnskostnað

Fjármögnunarleiðin hefur oft verið kölluð „PPP“- leið, þar sem framkvæmdaaðilanum er líka falin fjármögnun verkefnis. Til stóð að nýr Axarvegur yrði lagður með þessari leið. Vilhjálmur sagði Vegagerðina og innviðaráðuneytið þar ekki hafa haldið nógu vel á spilunum. Hann skýrði það þannig að ekki hefðu verið veittar nógu góðar upplýsingar varðandi áhættu af verkefnunum og henni verið velt á væntanlega bjóðendur sem á móti hefðu áætlað fjármagnskostnað mjög háan. Vegagerðinni og ráðuneytinu hafi ekki litist á stöðuna og farið aðra leið.

Niðurstaðan sé sú að farið hafi verið af stað með Hornafjarðarfljót en það farið fram úr áætlun og vegurinn yfir Öxi því farið í bið. Vilhjálmur sagði að enn væri mikil umræða um hvernig hægt væri að leysa úr hnútnum og hann hefði trú á að það myndi takast. „Þetta hefur verið gert um allan heim. Lykillinn er að fá Vegagerðina til að sleppa aðeins takinu, þá er ekkert mál að fara í Öxi.“

Fjarðarheiðargöng háð Austfjarðagöngum

Sérstaklega um Fjarðarheiðargöng sagði hann að umhverfis- og samgöngunefnd hefði samþykkt árið 2019 að setja þau í forgang meðal jarðganga. Það hafi verið samþykkt með því skilyrði að haldið yrði áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð, oft nefnt Austfjarðagöng og voru þau þá næst í röðinni. Í drögum að samgönguáætlun frá sumrinu 2023 hafi Austfjarðagöngin verið komin í sjöunda sætið.

„Það er breyting sem ég get ekki sætt mig við. Fjarðarheiðargöngin eru vissulega dýr en það er ekki hægt að fara í svona dýra framkvæmd nema nýta hana til fulls. Forsendan fyrir því er að halda áfram.“

Bæði síðasta og núverandi ríkisstjórn hafa lagt til að tekið verði upp kílómetragjald. Vilhjálmur hafnaði því. „Það mun engu bæta við í vegagerð. Við eigum að slátra því og setja fókus á gjaldtökuna á stofnleiðunum. Þá verður nóg til í vegagerð. Við getum horft til Færeyinga. Ef við tökum þeirra jarðgöng og uppreiknum til okkar þá er kostnaðurinn 600 milljarðar. Við getum þetta og lausnin er til.“

Verður að vera hægt að nýta framkvæmdirnar til fulls

Jens Garðar boðaði í þingræðu tillögu um stofnun innviðafélags að færeyskri fyrirmynd. Hann sagði þörfina mikla, inn í samgönguáætlun vantaði 10 milljarða til gangagerðar en síðan 20 milljarði í aðra innviði. Til að mynda væru þungatakmarkanir á brúm á Austurlandi orðinn verulegur flöskuháls.

Hann lagði út frá orðum Vilhjálms um að fullnýta yrði samgönguframkvæmdir. Ekki gengi að Dettifossvegur, framkvæmd upp á 3,5 milljarða, væri ófær stóran hluta ársins því ekki væru til peningar til snjómoksturs. Þannig mætti ekki fara um Öxi.

Hann lýsti einnig áhyggjum af orðum Eyjólfs Ármannssonar, nýs innviðaráðherra, að hann væri ekki bundinn af fyrri samgönguáætlunum. Það gæti þýtt að mikilvægar samgöngubætur á Austurlandi færðust aftar á forgangslistann.

Covid og Grindavík kostað sitt

Guðrún sagði að um allt land væri þörf á samgönguframkvæmdum. Hún nefndi vegi á Vestfjörðum sem verði að svaði á sumrin með tilheyrandi veseni fyrir flutninga. Hún rakti hins vegar að fjárútlát í Covid-faraldrinum og síðar í Grindavík hefðu þýtt að minna varð laust annars staðar. Í Covid hefði 450 milljörðum verið veitt til að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi þegar fótunum var kippt undan ferðaþjónustunni. Viðbrögðin í Grindavík væru komin í 100 milljarða.

„Á sama tíma keyrðum við líka niður vexti, í raun prentuðum peninga. Hélt einhver að þetta hefði engar afleiðingar? Við erum öll að greiða fyrir þetta. Síðan er barið á ríkisstjórninni sem stóð í þessu. Fyrri þetta hefðum við getað komið öllu vegakerfinu í toppstand og átt afgang. Í hjúkrunarheimilin vantar 20-30 milljarða, þannig við sjáum stærðirnar.“

Heimild: Austurfrett.is