
Ísfélagið fjárfestir fyrir um tvo milljarða á Þórshöfn í stórum frystiklefa sem notar síðustu dropana úr raflínunni til staðarins. RARIK, Landsnet og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið útkljá nú hvernig skuli skipta kostnaði við nýjan streng.
Nýi frystiklefinn á Þórshöfn er 2200 fermetrar og stendur að hluta á nýrri landfyllingu. Þetta er stórt mannvirki og mikil framkvæmd. Við klefann eru í smíðum eins konar steypt jarðgöng og stokkur fyrir gangandi umferð starfsmanna. Í klefanum verða geymdar frosnar uppsjávarafurðir Ísfélagsins sem áður voru að mestu geymdar í frystigeymslum erlendis.
„Við viljum geyma vöruna hjá okkur þar til við seljum hana. Geymslukostnaður erlendis hefur hækkað mikið síðan stríðið hófst í Úkraínu. Svo erum við líka að lausfrysta meira en áður og það tekur meira pláss en hefðbundin frysting. Þetta er risafjárfesting á okkar mælikvarða allavega. Þetta eru einhverjir tveir milljarðar sem fara í þennan klefa,“ segir Rafn Jónsson, rekstrarstjóri Ísfélagsins á Þórshöfn.
Efla þarf raflínuna til Þórshafnar
Bygging klefans hangir saman við talsverðar dýpkunar- og hafnarframkvæmdir Langanesbyggðar við Þórshöfn en styrkja þarf fleiri innviði. Nýr vegur kemur yfir Brekknaheiði og hefjast framkvæmdir í sumar en raftengingin til Þórshafnar er orðin of lítil og rétt svo dugar fyrir þessa stækkun Ísfélagsins.
„Við erum að nota síðustu dropana af rafmagni sem við getum fengið í klefann. Það eru einhver 400-500 kílówött sem klefinn tekur og meira er svo ekki í boði eftir flutningslínunni sem við höfum. Við gerum ekki meira á núverandi flutningskerfi nema það sem við erum nú þegar búnir að gera,“ segir Rafn.
Þingmenn og ráðherra hittu fulltrúa Landsnets og RARIK í síðustu viku
RARIK, Landsnet og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið útkljá nú hvernig skuli skipta kostnaði af lagningu nýrrar raflínu til Þórshafnar. Ekkert hefur verið ákveðið en heimildarmenn segja líklegast að RARIK leggi nýjan jarðstreng frá Vopnafirði sem hægt yrði að taka í notkun eftir þrjú ár.
Landsnet er ekki með afhendingarstað á Þórshöfn og þangað liggur strengur sem RARIK rekur á lægra spennustigi. Þetta hamlar uppbyggingu, bræðslan á Þórshöfn hefur ekki getað rafvæðst og lítið svigrúm til orkuskipta. Óljóst hefur verið hvort Landsnet eða RARIK myndi sjá um að bæta tenginguna til Þórshafnar. Ef Landsnet réðist í fjárfestinguna má segja að kostnaður myndi dreifast á alla landsmenn en ef RARIK borgar brúsann leggst kostnaður á viðskiptavini RARIK sem eru aðeins hluti landsmanna.
Til að höggva á hnútinn var boðað til fundar á fimmtudag þar sem hittust fulltrúar fyrirtækjanna tveggja ásamt þingmönnum og ráðherra. Tvær lausnir voru ræddar, að RARIK myndi leggja 66 kílóvolta jarðstreng sem tæki þrjú ár eða að Landsnet reisti öflugri 132 kílóvolta loftlínu sem gæti tekið átta ár og yrðir talsvert dýrari framkvæmd.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er líklegast að jarðstrengurinn frá Vopnafirði verði fyrir valinu. Hægt yrði að taka hann í notkun árið 2028 og yrði um leið komin á hringtenging um svæðið. Hins vegar þarf að útkljá kostnaðarskiptingu og er sá bolti nú hjá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Öflugri loftlína gæti svo komið til Þórshafnar og víðar við Langanes síðar, ekki síst ef áform um vindorkuver eða stórskipahöfn í Finnafirði verða að veruleika.
Heimild: Ruv.is