
Framkvæmdir eru hafnar á Vatnsstíg á milli Laugavegar og Hverfisgötu í miðbænum í Reykjavík. Veitur og Reykjavíkurborg vinna þar að því að endurnýja innviði og umhverfi, en klára á vinnuna í lok sumars. Eftir breytingarnar verður þessi hluti götunnar göngugata.
Í tilkynningu frá borginni segir að farið verði í jarðvegsskiptingu og nýtt yfirborð lagt á með hellulögnum og gróðurbeðum. Á sama tíma munu Veitur leggja nýjar lagnir í fráveitu, hitaveitu, vatnsveitu og rafveitu.
Undanfarið hefur mikil uppbygging átt sér stað austan megin við götuna, á svokölluðum Vatnsstígsreit, en það er hluti af mikilli uppbyggingu á þremur reitum milli Laugavegs og Hverfisgötu á síðustu tíu árum: Hljómalindarreit, Brynjureit og Vatnsstígsreit.

Við uppbyggingu Vatnsstígsreitsins var ákveðið að gera lítið torgsvæði innan lóðarinnar sem opnast út á Vatnsstíginn.
Þá verður lýsing á svæðinu einnig uppfærð með lægri ljósastaurum en nú eru í takt við önnur svæði í miðborginni. Gert er ráð fyrir auknum gróðri við götuna og blágrænum ofanvatnslausnum, en með því á að veita ofanvatni í jarðveginn t.d. með að hafa ekki allt yfirborð hellulagt heldur bæta við beðum sem vatni er beint í.
Á verktímanum verður lokað fyrir bílaumferð en aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda verður tryggt allan tímann, að því er segir í tilkynningunni, en eftir framkvæmdir verður gatan svo alfarið göngugata.
Heimild: Mbl.is