Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir í rjómablíðu í hámarki á Þeistareykjum

Framkvæmdir í rjómablíðu í hámarki á Þeistareykjum

72
0
Á Þeistareykjum Mynd: LNS Saga.

Framkvæmdir á Þeistareykjum eru nú í hámarki og þar vinna um 240 manns þessa dagana að smíði 90 megavatta jarðvarmavirkjunar fyrir Landsvirkjun.

<>

Eftir snjóþungan vetur hefur veðrið leikið við starfsmenn í sumar. Myndir frá vinnusvæðinu voru sýndar í fréttum Stöðvar 2.

Frá Húsavík liggur 28 kílómetra vegur að Þeistareykjum en virkjanasvæðið er í 330 metra hæð yfir sjávarmáli. Stöðvarhúsið er þegar orðið mest áberandi mannvirki á svæðinu og staðarverkfræðingur Landsvirkjunar, Einar Erlingsson, segir okkur að verkið gangi samkvæmt áætlun, en smíði stöðvarhússins á að ljúka í nóvember á þessu ári.

Og það er óhætt að segja að allt sé á útopnu þessa dagana.

„Við erum í dag á verkstað milli 230 og 240 starfsmenn. Þetta er mannaflatoppurinn og verðum í þessari mynd út sumarið en svo fækkar í haust,“ segir Einar.

Stærsti verktakinn er LNS Saga, með um 180 manns í stöðvarhúsinu og við lagningu gufuveitu með yfir sex kílómetrum af lögnum. Jarðboranir eru með 25 manns að bora fleiri vinnsluholur og véla- og rafverktaki með þrettán manns að setja upp kæliturn.

Og kannski kemur það ýmsum á óvart hvaðan meirihluti starfsmanna kemur, sé miðað við talningu þeirra sem sótt hafa öryggisnámskeið, sem allir verða að gera. 40 prósent þeirra eru útlendingar, mest Pólverjar, en 60 prósent Íslendingar, að sögn Einars.

Og þarna hátt inni í landi fengu þeir auðvitað að kynnast norðlenskum vetri með snjóþyngslum.

„Það var töluverð snjókoma og töluverð truflun í apríl þegar menn ætluðu að fara að hefja útivinnu. Að fá þennan snjó seinkaði í raun upphafi sumarvertíðarinnar.

“ Góð tíð í sumar hefur bætt það upp. „

Það er búið að vera mjög gott í sumar, miklu betra en við fengum til að mynda í fyrrasumar, þegar við vorum hér í átta gráðum og þoku. En við erum búnir að vera með marga góða daga yfir fimmtán gráður og hægviðri,“ segir staðarverkfræðingur Landsvirkjunar.

Það verður svo haustið 2017 sem raforkuframleiðslan á að hefjast, í tæka tíð áður en kísilmálmverksmiðja PCC á Bakka á að hefja rekstur.

Heimild: Visir.is