
Stór hluti hringvegarins – leiðin úr Þingeyjarsýslum og til Reykjavíkur – er í slæmu ástandi. Þetta segir Gunnlaugur Sveinbjörnsson, vöruflutningabílstjóri hjá Eimskip. Hann keyrir frá Húsavík og ekur landshluta á milli oft í hverri viku. „Undirlag vega er víða alltof veikt svo þeir gefa sig. Á mörgum stöðum er slitlagið sprungið svo yfirborðið líkist mósaíkmynd. Hefjast þarf handa um viðgerðir strax og víða þarf endurbyggingu,“ segir Gunnlaugur.
Hann segir að í raun megi líkja þjóðvegum landsins „við gamlar vinnubuxur; stagbættar með saumsprettum þar sem víða glittir í göt.“
Í vöruflutningum Eimskips á þjóðvegunum eru 170 bílar. Þar við bætast svo nokkrir tugir flutningabíla sem verktakar og samstarfsaðilar gera út. „Aðstæður á vegum að undanförnu hafa verið óboðlegar,“ segir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskips. Morgunblaðið ræddi við Eddu og Gunnlaug um stöðu mála.

Snillingar láta hluti ganga upp
„Á síðustu vikum hefur í nokkrum tilvikum komið til þess að leyfilegur öxulþungi bíla á vegunum hafi verið lækkaður í sjö til tíu tonn. Þetta var til dæmis raunin á Bröttubrekku og í Dölum og því varð að beina bílum á Vestfjarðaleiðinni annað; um Holtavörðuheiði og Strandir.
Blætt hefur úr klæðningu á vegunum og það víða um landið. Blæðingunum fylgir mikil hætta; tjöruklessur sem jafnvel vega nokkur kíló setjast á bílana og fylla mynstur dekkjanna. Því fylgir mikil hætta í hálku og veldur skemmdum,“ segir Edda Rut, sem í þessu sambandi leggur áherslu á að vöruflutningar séu ein af lífæðum samfélagsins.
„Daglega flytjum við með vöruflutningabílum nauðsynjavörur út á land sem krefjast hraðrar afhendingar. Utan af landi er það svo að miklu leyti ferskur fiskur sem fluttur er í vinnslur og útflutning sem styður verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið. Þetta er ein stór keðja þar sem hver hlekkur er mikilvægur,“ segir Edda Rut og heldur áfram:

Öryggi og afhending
„Leyfilegur heildarþungi flutningabíla er 49 tonn en er stundum settur í 44 tonn. Þá hefur þurft að fjölga bílum á einstaka leiðum til að tryggja afhendingu. Stundum er líka hægt að fresta einstaka sendingum um tvo eða þrjá daga, þá í samráði við viðskiptavini okkar. Bílstjórarnir og þau sem stýra akstrinum eru snillingar í að láta mál ganga upp. Það breytir því þó ekki að vegi þarf að bæta til að tryggja öryggi í umferðinni og vöruafhendingu. Eimskip og önnur flutningafyrrtæki greiða há umferðartengd gjöld í formi þungaskatts og annars, sem mikilvægt er að skili sér í innviðaframkvæmdir.“
Nánari umfjöllun er á finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 6. mars.
Heimild: Mbl.is