
Vegagerðin skrifaði í vikunni undir samning um þriðja og síðasta áfanga vegbóta yfir Dynjandisheiði. Þegar framkvæmdum verður lokið verður hægt að keyra á milli Ísafjarðar og Suðurfjarðanna á bundnu slitlagi alla leið.
Ljúka á þriðja og síðasta áfanga í endurgerð vegarins yfir Dynjandisheiði á Vestfjörðum í september á næsta ári. Borgarverk átti lægsta tilboðið í framkvæmdina.
„Það er gríðar áfangi að klára þessa heiði,“ segir Sigurþór Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni. Verktakinn hefur samstundis störf og í september á næsta ári er gert ráð fyrir að nýr vegur yfir heiðina verði tilbúinn.
Hann verður lagður tvöfaldri klæðingu og að mestu byggður í nýju vegstæði. „Þetta verður náttúrulega allt öðruvísi vegur, miklu breiðari og umfangsmeiri en sá sem var fyrir. Með von um að hann verði náttúrulega miklu snjóléttari og þægilegri í akstri.“
Gerir samgöngur á landi auðveldari
Með tilkomu Dýrafjarðarganga árið 2019 var fyrst hægt að aka milli Ísafjarðar og Suðurfjarðanna um vetur. Dynjandisheiðin var þó enn farartálmi vegna ófærðar og snjóflóðahættu.
Sjö kílómetra malarkafli ofan af Dynjandisheiði og fram hjá fossinum Dynjanda er síðasti áfanginn í vegbótum sem gera vesturleiðina færa um vetur. Það tekur um tvo tíma að aka þessa leið milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar en fimm og hálfan tíma að fara Djúpið.
„Þetta er vegur sem var náttúrulega nánast ekki haldið opnum að vetri tal þannig að nú er kominn fullkominn vegur þarna yfir sem á eftir að nýtast vel held ég í samskiptum Suðurfjarða og Ísafjarðar til dæmis.
Óánægja með vetrarþjónustu
Vestfirðingar hafa þó líka bent á að fjárfestingin í nýjum vegum nýtist ekki sem skyldi ef vegirnir eru ekki mokaðir. Bæði Vesturbyggð og Ísafjarðarbær hafa nýlega ályktað um þörf á aukinni vetrarþjónustu á Dynjandisheiði.
Vegurinn er þjónustaður frá 10-17 virka daga. Á kvöldin og um helgar er vegurinn ekki mokaður og þá getur færð verið fljót að spillast.
Heimild: Ruv.is