Home Fréttir Í fréttum Hafnarfjarðarbær kaupir Skessuna

Hafnarfjarðarbær kaupir Skessuna

36
0
Mynd: Hafnarfjordur.is

Hafnarfjarðarbær og FH hafa undirritað samning um kaup á Skessunni, knatthúsi FH-inga, 8400 fermetra íþróttamannvirki á íþróttasvæði félagsins. Kaupverðið er 1,190 milljónir króna.

Skessan í eigu Hafnfirðinga
„Við horfum til framtíðar með FH og fögnum því að nú eiga Hafnfirðingar Skessuna rétt eins og önnur íþróttamannvirki í bænum,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Ritað var undir kaupsamninginn í vikunni. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum síðastliðinn miðvikudag að kaupa Skessuna, knatthús FH-inga, með öllu því sem eigninni fylgir auk tilheyrandi lóðaréttinda.

„Skessan var byggð með hagkvæmum hætti á sínum tíma og er gott mannvirki sem reynst hefur iðkendum og félaginu vel. Ytri aðstæður hafa hins vegar haft mikil áhrif á framkvæmdir og rekstur og því var nauðsynlegt að stíga þetta skref í samvinnu við félagið og með hag iðkenda að leiðarljósi líkt og við höfum ávallt í forgrunni í okkar ákvarðanatöku,“ segir bæjarstjóri.

„Við göngum sannfærð og sátt til samninga. Samstarfið við FH hefur ætíð verið farsælt og við einhuga um að halda áfram að byggja upp faglegt og gott starf og góða aðstöðu í Kaplakrika. Við höfum einnig tryggt að þetta forna félag standi styrkari fótum fjárhagslega og geti einbeitt sér að því sem það gerir best; efla öflugt íþróttasamfélag og þjálfa og styrkja börnin okkar til framtíðar. Bærinn sér um viðhald og umgjörð mannvirkisins sem verður sem önnur í eigu bæjarbúa,“ segir hann.

Kaupverðið er 1,190 milljónir króna
Greitt er fyrir Skessuna með yfirtöku áhvílandi skulda að fjárhæð 695 milljónir króna, fyrirframgreiddu fjárframlagi að upphæð rúmlega 333 milljónir króna. Félagið fær tæplega 141,7 milljónir við afsal og 20 milljónir króna greiðast þegar gefin hafa verið út vottorð vegna öryggis- og lokaúttektar mannvirkisins. Valdimar segir undirbúning kaupanna hafa verið mikinn. Allir kimar hafi verið skoðaðir.

„Við höfum lagt áherslu á samstarf hlutaðeigandi og að vanda til verka. Nýverið samþykkti bæjarráð endurskoðun á þjónustu- og rekstrarsamningum allra stóru félaganna í bænum. Markmiðið er skýrt, aukið gegnsæi fyrir alla og ábyrg meðferð á fjármunum,“ segir Valdimar.

Sérstakur viðauki er gerður við kaupsamning Skessunnar sem tekur til breytinganna. Endurskoðun og uppfærsla samninga nær til þeirra félaga í bænum sem fá yfir 35 milljóna króna framlög frá Hafnarfjarðarbæ á ársgrundvelli og er endurskoðun þegar farin af stað. Ný ákvæði ná annars vegar til reglna og eftirlits um fjárreiður og meðferð fjármuna og hins vegar til tilnefninga áheyrnarfulltrúa frá Hafnarfjarðarbæ í aðalstjórnir félaganna.

Heimild: Hafnarfjordur.is