Home Fréttir Í fréttum Óvíst um lendingar við nýjan Landspítala

Óvíst um lendingar við nýjan Landspítala

24
0
RÚV – Kristinn Gauti Gunnarsson

Óvíst er hvort sjúkraþyrlur geti lent við nýjan Landspítala við Hringbraut. Þyrlulæknir segir brýnt að ákvörðun verði tekin sem fyrst – líf liggi við.

Svo getur farið að engin lendingaraðstaða verði fyrir sjúkraflug við nýjan Landspítala. Samkomulag er um lendingar í Nauthólsvík. Læknir segir að það valdi töfum sem geti kostað líf.

Stefnt er að því að taka nýjan Landspítala í notkun 2030, sem er eftir fimm ár, en ýmislegt er ófrágengið. Þar á meðal hvort og hvernig þyrlur geta lent með veikt og slasað fólk við spítalann. Ekkert rými er fyrir þyrlupall á jörðu niðri, hugmyndir hafa verið um að koma fyrir lendingarstað á þaki rannsóknahúss spítalans en ákvörðun hefur ekki verið tekin að sögn Ásgeirs Margeirssonar sem er formaður stýrihóps um nýjan Landspítala.

„Hins vegar er samkomulag allra aðila sem að málinu koma að það verði jafnframt lendingarstaður fyrir þyrlur í Nauthólsvík. Síðan mun tíminn leiða í ljós hvernig málum verður nákvæmlega háttað hér með þyrlupall ofan á rannsóknahúsinu.“

Frá lendingarstað á starfssvæði Landhelgisgæslunnar í Nauthólsvík er þriggja kílómetra akstur að spítalanum, sem tekur mislangan tíma eftir umferð og færð. „Við vitum að það er bæði tímamunur og áhættumunur að lenda með sjúkling á palli á sjúkrahúsinu,“ segir Viðar Magnússon þyrlulæknir. „Þar sem við spörum heilmikinn tíma versus að þurfa að lenda með sjúkling hérna í Nauthólsvíkinni. Þarna erum við að tala um, við bestu aðstæður, um 20 mínútna mun.“

Getur þýtt muninn á lífi eða dauða
Hvað getur 20 mínútna munur þýtt? „Ef við erum að hugsa um sjúkling sem er illa slasaður og þarf á blóði að halda, eða fjöláverkateymi og skurðaðgerð, þá geta 20 mínútur þýtt muninn á lífi eða dauða,“ segir Viðar. Hann segir að allir auka flutningar á veiku fólki geti skapað talsverða hættu; þurfi til dæmis að flytja fólk úr þyrlu, í sjúkrabíl og svo á sjúkrahús í stað þess að geta fært það beint úr þyrlu á sjúkrahús.

RÚV / Gréta Sigríður Einarsdóttir

Hvort og hvernig hægt er að koma palli fyrir á þaki hússins ræðst meðal annars af stærð þyrlnanna. „Ef stórar leitar- og björgunarþyrlur, eins og eru í notkun hér á landinu í dag, eiga að lenda ofan á húsinu þá þarf pallurinn að vera nokkuð hár ofan á húsinu,“ segir Ásgeir. „Nánast eins og turn ofan á húsinu til að valda ekki skarkala á jörðu niðri þegar þyrlurnar koma og fara. Það á eftir að vinna nánar úr þessum málum.“

Pallur á hæð við hálfa Hallgrímskirkju
Húsið sjálft er um 18 metrar og þessi turn yrði næstum jafnhár, eða 17 metrar. Samtals yrðu þetta um 35 metrar, hátt í hálf hæð Hallgrímskirkju.

Spurður hvort þyrlupallur gæti verið kominn í gagnið eftir fimm ár, þegar nýr spítali verður tekinn í notkun, svarar Ásgeir að tíminn muni leiða það í ljós.

„Forsendurnar liggja allar fyrir, það þarf að taka ákvörðun um hvort það eigi að vera þyrlupallur þarna eða ekki,“ segir Viðar.

Heimild: Ruv.is