Home Fréttir Í fréttum Þrándarholt sf bauð lægst í reisingu íþróttamiðstöðvarinnar

Þrándarholt sf bauð lægst í reisingu íþróttamiðstöðvarinnar

72
0
Íþróttahúsið úr lofti horft í suðaustur. Tölvumynd/Magnús Arngrímur

Þrándarholt sf átti lægsta tilboðið í reisingu á nýju íþróttamiðstöðinni í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Tilboðin voru opnuð í síðustu viku.

<>

Tilboð Þrándarholts hljóðaði upp á 72,8 milljónir króna og reyndist það eina tilboðið sem var undir kostnaðaráætlun sveitarfélagsins, sem hljóðar upp á 97,3 milljónir króna.

Verkið felur í sér að reisa límtréshús með steinullareiningum, framleitt af Límtré-Vírnet, á steypta plötu og fullnaðar frágang yleininga, hurða og glugga.

Sex önnur tilboð bárust í verkið. Tré og Straumur bauð 110,7 milljónir króna, Tindhagur 117,2 millljónir, Múr- og málningarþjónustan Höfn 149,2 milljónir, Húsameistari 149,5 milljónir, Neglan byggingarfélag 222 milljónir og Perago Bygg bauð 233,9 milljónir króna.

Héðinshurðir buðu best í glugga og hurðir
Á sama fundi voru opnuð tilboð í framleiðslu á gluggum og hurðum fyrir íþróttamiðstöðina. Héðinshurðir átti lægsta tilboðið sem hljóðaði upp á 15,3 milljónir króna og var það eina tilboðið sem var undir kostnaðaráætlun sveitarfélagsins, sem er 15,6 milljónir króna.

Sex önnur tilboð bárust í verkið. Jupo Íslandi bauð 15,8 milljónir króna, Álfag 17,1 milljón, Gluggatækni 20 milljónir, Gluggavinir 23 milljónir, Endurbætur ehf 29,9 milljónir og Kambar 30,1 milljón króna.

Heimild: Sunnlenska.is