Home Fréttir Í fréttum Vonast til að hefja framkvæmdir við ofanflóðavarnir í Grjótá í ár

Vonast til að hefja framkvæmdir við ofanflóðavarnir í Grjótá í ár

25
0
Eskifjörður. Olíuhúsið, bílskúrarnir og Grjótáin eru lengst niður til vinstri í myndinni. Mynd: GG

Kaupa þarf upp fjórar fasteignir utan við Grjótá á Eskifirði vegna væntanlegra ofanflóðavarna. Hönnun varnanna er nærri lokið og fjármagn fyrir hendi þannig hægt sé að hefja framkvæmdir fyrir lok þessa árs.

<>

Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti á mánudag að hefja ferli við uppkaup eignanna. Um er að ræða bílskúra, sem eru einu húsin sem standa við sjálfa Grjótárgötuna sem liggur upp frá Strandgötu, en hún liggur meðfram sjónum í gegnum bæinn. Einnig þarf að kaupa upp hús neðan við hana, Strandgötu 36, eða Olíuhúsið.

Lokahönnun varnanna er ekki lokið en að sögn Gunnars Jónssonar, bæjarritara, er hún það langt komin að ljóst er að umræddar fasteignir þurfa að víka. Búið er að gera áætlanir um hversu stór flóð geta komið niður árfarveginn.

Til að meta eignirnar eru tilnefndir tveir matsmenn, annar frá Fjarðabyggð, hinn frá Ofanflóðasjóði. Matið verður síðan kynnt eigendum húsanna. Gunnar segir uppkaupin lið í undirbúningi framkvæmdanna.

Lokahönnunin er ekki tilbúinn en drög að henni hafa verið kynnt sveitarfélaginu. Ljóst er að farvegurinn þarf að færast eða stækka til austurs, þar sem húsin standa á árbakkanum.

Stærstu varnarmannvirkin á Eskifirði

Gunnar segir að um mikla framkvæmd sé að ræða, engu minni en í næstu á fyrir utan, Lambeyrará. Farvegur var stækkaður, áin sett í stokk og grafin niður. Skipta þarf út báðum brúnum yfir Grjótá. „Þetta er stærsta framkvæmdin í árfarvegum á Eskifirði,“ segir Gunnar.

Endanleg lokahönnun verður kynnt á íbúafundi þegar hún liggur fyrir. Vonast er til að það verði fyrri hluta mars. Fjármagn til framkvæmdarinnar var tryggt á fjárlögum þessa árs. Gangi allt að óskum í útboðsferlinu verður hægt að hefja framkvæmdir fyrir lok árs.

Beðið hefur verið eftir hönnuninni í nokkur ár því deiliskipulag miðbæjar á Eskifirði hefur strandað á henni. Vinna við það getur haldið áfram þegar hönnunin verður tilbúin. Í nágrenninu er meðal annars Eskjutúnið en á þessu stigi er ekki útlit fyrir að það skerðist.

Heimild: Austurfrett.is