Home Fréttir Í fréttum Pípulagningameistarar ósáttir við mat á iðnnámi frá Póllandi

Pípulagningameistarar ósáttir við mat á iðnnámi frá Póllandi

66
0
Tækniskólinn er stærsti iðnnámsskóli landsins. RÚV – Kveikur

Fagfélög iðnaðarmanna segja grafið undan iðnnámi á Íslandi með því að meta síðra nám frá öðrum löndum jafngilt. Þau hafa kært mat á erlendu námi til ráðuneytis.

<>

Fagfélög iðnaðarmanna segja grafið undan iðnnámi á Íslandi með því að meta síðra nám frá öðrum löndum jafngilt. Dæmi séu um að vikulöng námskeið í Póllandi séu lögð að jöfnu við tveggja ára iðnnám.

Skrifstofa að nafninu ENIC/NARIC sér um að meta erlent nám og ganga úr skugga um að menntunin sé sambærileg við íslenska menntun áður en meistarapróf og starfsleyfi eru gefin út.

Félag pípulagningameistara hefur kært ENIC/NARIC til ráðuneytisins og krafist þess að ráðuneytið ógildi ákvarðanir um að pólsk meistarapróf, Dyplom Mistrzowski, séu metin jafngild íslensku meistaraprófi í pípulögnum.

Félagið bendir á að meistaraprófið í Póllandi taki alla jafna eina til tvær vikur, samanborið við tveggja ára nám hérlendis.

Rétt er að halda því til haga að uppfylla þarf inntökuskilyrði til að komast inn í pólska námið, sem er þá frekar hugsað sem mat á þeirri þekkingu sem viðkomandi býr yfir.

Engu að síður, segir Félag pípulagningameistara að ekkert liggi fyrir um lengd pólska námsins og inntak. Málið var rætt á þingi í dag og þingmaður Viðreisnar segir mikilvægt að breyta reglugerð þannig að skýrt sé hvaða kröfur eru gerðar.

„Ég tel tímabært að sett séu skýr viðmið um lágmarksnámstíma og þekkingu og sett sé krafa á iðnmeistara, bæði íslenska og erlenda, um þekkingu á lögum og reglum um mannvirkjagerð,“ sagði Karólína Helga Símonardóttir, varaþingmaður Viðreisnar, í umræðum á Alþingi í dag.

Heimild: Ruv.is