Stefnt er á að ný vatnsveita verði tekin í notkun í Bolungarvík í næstu viku. Bæjarstjóri segir vatnsveituna eina stærstu innviðafjárfestingu síðustu áratuga í bæjarfélaginu og að hún muni hagnast íbúum sem og fyrirtækjum.
Í dag var opið hús í vatnsveitunni þar sem heimamenn gátu virt hana fyrir sér.
Hönnuð til þess að taka inn borholuvatn
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, segir veituna vera byltingu. Vandræði hafi verið með vatnsgæði í Bolungarvík í fortíðinni en Bolungarvík notar yfirborðsvatn sem þarf að hreinsa.
Þá hafi hreinsistöð bæjarfélagsins verið orðin gömul og lent í vandræðum með að halda vatninu hreinu.
![](http://byggingar.is/wp-content/uploads/2025/02/15.02.2025-Ein-staersta-innvidafjarfesting-sidustu-aratuga-a.jpg)
Með nýju vatnsveitunni mun hins vegar fylgja ný hreinsistöð sem hreinsar, síar og geislar yfirborðsvatn en er líka hönnuð til þess að taka inn borholuvatn.
„Við höfum verið að bora eftir neysluvatni síðustu ár og munum tengja síðustu holurnar inn á þessa hreinsistöð í sumar og þá eru væntingar til þess að megnið af vatninu í Bolungarvík komi þá úr borholum,“ segir Jón Páll í samtali við mbl.is.
![](http://byggingar.is/wp-content/uploads/2025/02/15.02.2025-Ein-staersta-innvidafjarfesting-sidustu-aratuga-b.jpg)
Skapar mikið rekstraröryggi
Einnig er stór hluti af vatnsveitunni gríðarlega stór forðatankur þar sem verður hægt að geyma mörg þúsund tonn af vatni.
„Þannig í upphafi dags erum við með sólarhring af vatni.“
![](http://byggingar.is/wp-content/uploads/2025/02/15.02.2025-Ein-staersta-innvidafjarfesting-sidustu-aratuga-c.jpg)
Segir Jón Páll að þannig skapist einnig mikið rekstraröryggi fyrir matvælafyrirtækin í bæjarfélaginu en í Bolungarvík er mjólkurframleiðsla, laxvinnsla og fiskvinnsla.
„Þetta eru allt fyrirtæki sem reiða sig á hreint og öruggt vatn þannig þetta er gríðarlega stór fjárfesting. Þetta er ein stærsta innviðafjárfesting síðustu áratuga í Bolungarvík. Við erum að setja mjög mikið af okkar fjármunum í þessa vatnsveitu til þess að tryggja þetta,“ segir bæjarstjórinn.
„Það er einhverra hluta vegna erfitt að vera spenntur fyrir vatni en við erum það í dag,“ bætir hann við að lokum.
![](http://byggingar.is/wp-content/uploads/2025/02/15.02.2025-Ein-staersta-innvidafjarfesting-sidustu-aratuga-d.jpg)
Heimild: Mbl.is