Glænýtt knatthús Hauka var vígt í dag 14. febrúar. Verktaki hússins ÍAV afhenti bænum mannvirkið formlega og ritað var undir rekstrarsamning milli Hauka og Hafnarfjarðarbæjar. Arnór Bjarki Blomsterberg prestur vígði húsið, sem er rúmir 11 þúsund fermetrar að stærð.

Nýtt knatthús gjörbyltir íþróttalífi Hauka
Glænýtt knatthús Hauka var vígt í dag 14. febrúar. Verktaki hússins ÍAV afhenti bænum mannvirkið formlega og ritað var undir rekstrarsamning milli Hauka og Hafnarfjarðarbæjar. Arnór Bjarki Blomsterberg prestur vígði húsið, sem er rúmir 11 þúsund fermetrar að stærð.
„Þetta eru tímamót sem við fögnum,“ segir Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
„Þetta hús hefur gífurlega mikla þýðingu fyrir íþróttalíf í bænum og Hafnfirðinga alla. Hafnarfjörður er íþróttabær og þetta glæsilega hús er vitnisburður um hvað við erum stórhuga þegar kemur að uppbyggingu íþróttamannvirkja. Íþróttir eru besta forvörnin og hús sem þetta dregur til sín fleiri iðkendur, unga sem aldna,“ segir bæjarstjóri. „Haukar og Hafnfirðingar allir, innilega til hamingju með húsið. Ég er stoltur af þessum framförum í bænum okkar.“

Knatthúsið glæsileg bygging
Magnús Gunnarsson, formaður Hauka, fagnar nýja húsinu. „Við höfum beðið lengi eftir betri aðstöðu og þetta nýja knatthús er gjörbylting fyrir knattspyrnudeildina, sem og félagið okkar allt. Það er himinn og haf að fá þessa aðstöðu frá því sem nú er. Þetta er glæsileg bygging.“
Magnús segir að þrátt fyrir að húsið sé bogadregið, stórt og mikið sé það prýði. „Það er mjög mikið gler í byggingunni. Við föngum því náttúruna og hér líður fólki vel. Húsið heldur vel utan um okkur og ég er sannfærður um að iðkendur og áhorfendur eiga eftir að njóta margra ánægjustunda í húsinu, enda þetta eitt glæsilegasta knatthús landsins,“ segir Magnús og tekur fram að húsið sé ekki aðeins fyrir knattspyrnufólk.
„Hér eru tartanbrautir sem liggja í kringum knattspyrnuvöllinn sjálfan. Við hugsum það fyrir eldri borgara og aðra hópa sem geta þá nýtt húsið á morgnana. Við munum leggjast yfir hvernig við mætum óskum um notkun hússins sem best.“

Skóflustungan árið 2021
Knatthúsið hefur risið hratt. Rósa Guðbjartsdóttir fyrrum bæjarstjóri tók fyrstu skóflustunguna að þessu nýja knatthúsi Hauka mánudaginn 12. apríl 2021 á 90 ára afmælisdegi knattspyrnufélagsins. Síðasta sperran fór svo upp í febrúarlok fyrir ári.
Haukar segja að með tilkomu þessa glæsilega knatthúss verði draumur að veruleika. Húsið mun gjörbreyta allri aðstöðu þeirra. Gert er ráð fyrir að það fari í fulla notkun fljótlega.
Heimild: Hafnarfjordur.is