Heildarkostnaður við endurbætur á íbúðarhúsi forseta Íslands nam rúmlega 120 milljónum. Upphafleg kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir 86 milljónum. Stærsti kostnaðarliðurinn voru nýjar innréttingar og uppsetning á þeim eða 45 milljónir.
Þegar Halla Tómasdóttir var kosin forseti Íslands í sumar var ljóst að ráðast þurfti í talsverðar breytingar á embættisbústað forsetans. Út flutti sex manna barnafjölskylda og inn fluttu hjón á miðjum aldri með tvö uppkomin börn.
Samkvæmt svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu nemur heildarkostnaður við framkvæmdirnar 120 milljónum en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir 86 milljónum. Forsætisráðuneytið segir að aukinn kostnað megi meðal annars skýra af því að viðgerðir og endurnýjun lagna hafi verið erfiðari og kostnaðarsamari en gert hafi verið ráð fyrir. Verktími hafi sömuleiðis verið hafður eins skammur og hægt var í haust, meðal annars vegna öryggissjónarmiða ríkislögreglustjóra um búsetu forseta.
Forsætisráðuneytið segir framkvæmdirnar hafa falið í sér hefðbundið og tímabært viðhald. Neysluvatnslagnir voru illa farnar, gera þurfti við þær, hreinsa og skipta einhverjum út. Kostnaður við lagnahreinsun, viðgerðir á lagnakerfi og hreinlætis- og blöndunartæki nam tæpum 12,5 milljónum.
Forsætisráðuneytið segir húsnæðið hafa verið aðlagað vegna breyttra fjölskylduaðstæðna og ráðist í nauðsynlegar viðgerðir og viðhald innanhúss. Innréttingar hafi verið komnar á tíma og ákveðið að ráðast í allsherjar endurnýjun á þeim samhliða framkvæmdum. Eldhúsinnrétting var endurnýjuð, keypt ný gaseldavél á tæpa hálfa milljón og ísskápur og frystir upp á 780 þúsund.
Þá voru innréttingar á salernum og baðherbergjum endurnýjaðar og fataskápar settir upp. Kostnaður við nýjar innréttingar og uppsetning á þeim nam 45 milljónum. Þá var einnig keypt uppþvottavél á 350 þúsund, kostnaður við veggfóður og veggfórðun nam fjórum milljónum og vinna við ljós, lýsingar, gardínur og rafmagnsvinnu nam rúmum 12 milljónum. Þá er kostnaður við að tryggja og flytja búslóð forsetahjónanna um 5,7 milljónir.
Það er ekkert einsdæmi að ráðist skuli í umfangsmiklar endurbætur þegar nýr forseti flytur á Bessastaði. Þegar Guðni Th. Jóhannesson og fjölskylda hans fluttist á Álftanes hafði viðhaldi verið lengi haldið í lágmarki og aðeins gerðar minniháttar breytingar. Við forsetaskiptin 2016 var því ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir innanhúss og utan vegna viðhalds og aðlögunar að breyttum heimilisaðstæðum nýs forseta. Heildarkostnaður vegna þeirra framkvæmda á verðlagi dagsins í dag nam rúmlega 90 milljónum króna, samkvæmt svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu.
Heimild: Ruv.is