Hlutafé Blikastaðalands var aukið um 150 milljónir króna í nóvember í fyrra.
Hlutafé Blikastaðalands ehf., félags utan um uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis á Blikastaðalandi í Mosfellsbæ, var aukið um 150 milljónir króna í nóvember í fyrra.
Landey, dótturfélag Arion banka, er eini hluthafi Blikastaðalands ehf. Landið er metið á 6,7 milljarða króna í bókum bankans. Verðmæti landsins hefur verið nokkuð í umræðunni, en Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, hefur t.a.m. bent á að virði landsins sé stórlega vanmetið.
Blikastaðalandið, 98 hektarar að stærð, er eitt stærsta óbyggða land á höfuðborgarsvæðinu og er gert ráð fyrir á bilinu 3.500-3.700 íbúðum á svæðinu, þar af 20% sérbýli. Þannig sagði Þorgerður Arna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, í viðtali hjá Mogganum á dögunum að byggðamynstrið á Blikastöðum muni líkjast gamla vesturbænum í Reykjavík.
Stefnt sé að því að kynna fullmótað deiliskipulag í lok árs 2025. Í framhaldi verði farið í innviðauppbyggingu og að lokum íbúðauppbyggingu sem gæti hafist árið 2027. Mögulega gætu því fyrstu íbúar Blikastaða flutt inn árið 2028.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni.
Heimild: Vb.is