Home Fréttir Í fréttum Húsaleigufrumvarp setji allt í uppnám

Húsaleigufrumvarp setji allt í uppnám

56
0
Félagsstofnun stúdenta getur ekki sinnt grundvallarhlutverki sínu, verði nýtt húsaleigufrumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, að lögum. Rekstur Félagsbústaða yrði einnig í uppnámi. Þetta segja talsmenn samtakanna. Eygló segir hugsanlegt að frumvarpið verði endurskoðað.

Tvö af fjórum frumvörpum Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um húsnæðismál voru afgreidd á fundi ríkisstjórnarinnar í lok mars og bíða nú meðferðar á Alþingi. Annað frumvarpanna snýr að ýmiss konar breytingum á húsaleigulögum.

<>

„Við fyrstu skoðun lítur það út fyrir að ef þetta fer í gegn eins og það er lagt til þá myndi það töluverðar afleiðingar og áhrif á reksturinn hjá okkur, segir Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta.

Samkvæmt núgildandi lögum hefur Félagsstofnun heimild til að gera samning við stúdenta, þannig að um leið og námi lýkur víkja þeir úr stúdentaíbúðum fyrir öðrum námsmönnum sem eru á löngum biðlista. Til stendur að fella þessa heimild úr lögunum í frumvarpi Eyglóar.

„Ef þessi heimild verður felld úr gildi hefur það að sjálfsögðu miklar afleiðingar fyrir okkur því að þá getum við ekki lengur sinnt þessu grundvallarhlutverki okkar sem er að útvega nemendum húsnæði meðan þeir sinna námi sínu,“ segir Rebekka.

Leiguverð á stúdentaíbúðum er mun lægra en á almennum leigumarkaði.

„Það liggur alveg fyrir að ef fólk hefur heimild til að dvelja lengur myndi það væntanlega velja þann kost sem væri mjög bagalegt og myndi væntanlega lengja biðlistann og seinka því að fólk kæmist að. Fólk þyrfti að bíða lengur,“ segir Rebekka.

Mikilvægt að hlusta eftir röddum

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir mikilvægt að fara yfir þessar ábendingar.

„Það er verið að gera strangari kröfur til leigufélaga því við teljum að þau geti staðið undir strangari kröfum sem snúa að uppsagnarfresti. En hins vegar, þegar við erum að tala um skammtímaleigu, eins og til dæmis varðandi stúdentaíbúðir, þá tel ég að það sé hægt að skoða það að fara inn í viðkomandi lagagrein og setja sérstakt ákvæði. En ekki þannig að það sé opið þannig að það sé hægt að víkja frá öllum ákvæðum laganna,“ segir Eygló.

Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, sem er stærsti leigusali landsins, vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins. Í skriflegu svari sagðist Auðun þó telja að verði frumvarpið að lögum myndi það setja rekstur Félagsbústaða í uppnám þar sem félaginu væri þá ekki lengur heimilt að takmarka þjónustu sína við þá sem verst eru settir félags- og fjárhagslega. Frumvarpið hljóti því að verða útfært nánar. Eygló segir að málið verði skoðað.

„Já ég held að það sé bara mjög mikilvægt að hlusta eftir þeim röddum sem snúa að því að beturumbæta frumvarpið. Það er hlutverk Alþingis að taka við umsögnum og athugasemdum við þess efnis. Og ég mun líka funda sjálf með þeim sem hafa ábendingar varðandi breytingar á frumvarpinu. Þannig að við getum unnið þetta vel saman,“ segir Eygló.