Home Fréttir Í fréttum Mikil samskipti við borgina fyrir byggingu græna vöruhússins – mest um bílastæði

Mikil samskipti við borgina fyrir byggingu græna vöruhússins – mest um bílastæði

31
0
RÚV – Víðir Hólm Ólafsson

Gögn sem fréttastofa hefur undir höndum sýna mikil samskipti sem voru milli þeirra sem byggðu græna, stóra vöruhúsið við Álfabakka og starfsmanna borgarinnar í aðdraganda framkvæmdarinnar. Samskiptin snerust mest um bílastæðamál.

<>

Mikil samskipti voru milli þeirra sem byggðu græna, stóra vöruhúsið við Álfabakka og starfsmanna borgarinnar í aðdraganda framkvæmdarinnar. Þau samskipti snerust þó að mjög litlu leyti um útlit og stærð hússins eða hugsanleg áhrif þess á íbúa við Árskóga 7, heldur fyrst og fremst hvort stórfyrirtækið Hagar, sem ætlar að leigja húsið undir sína starfsemi, fengi nægilega mörg bílastæði.

Þegar umfjöllun um vöruhúsið við Álfabakka hófst í lok síðasta árs óskaði Spegillinn eftir öllum samskiptum og gögnum sem til væru hjá skrifstofu borgarstjóra, skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa um vöruhúsið. Fyrirspurnin var send skömmu fyrir jól og svar borgarinnar barst í gær. Sumt fékkst afhent, annað ekki.

Tölvupóstarnir bera það með sér að Halldór Þorkelsson hjá Arcu sem Álfabakki 2 ehf fékk til að vera sér innan handar í samskiptum við Reykjavíkurborg, var í nokkuð stöðugu sambandi við Óla Örn Eiríksson, nýráðinn aðstoðarmann matvælaráðherra, sem á þessum tíma var yfir atvinnu- og borgarþróunarteymi Reykjavíkurborgar.

Gögnin varpa líka ljósi á að undir voru miklir hagsmunir stórfyrirtækisins Haga sem settu þrýsting á uppbyggingaraðilann.

Bílastæðamál rædd í þaula

Stór hluti samskiptanna sem Spegillinn fékk afhent snúast um bílastæði og umferð og þau sýna að verkefninu miðaði til að byrja með hægt áfram. Um miðjan nóvember 2023 sendir Halldór Þorkelsson frá Arcur tölvupóst á Óla Arnar hjá borginni og upplýsir hann um að áform um höfuðstöðvar Haga séu í verulegri hættu vegna óvissu um nægjanlegan fjölda bílastæða. Forsendurnar séu að á lóðinni verði um 200 bílastæði, stór hluti þeirra í þrjú þúsund fermetra bílakjallara.

Um miðjan desember fær skipulagsfulltrúi borgarinnar svipaðan tölvupóst frá Halldóri þar sem honum er tjáð að verkefnið sé komið í verulegar ógöngur, Hagar áformi að rifta leigusamningi sínum á þessu nýja mannvirki þar sem félagið hafi gengið út frá því að þarna yrðu 190 bílastæði.

Skipulagsfulltrúi segir að miðað við fyrirhugaða starfsemi sé hægt að miða við 51 til 100 stæði. Ekki sé hægt að bera þetta saman við Garðheima sem eru með verslun við Álfabakka 4 til 6 og ekki sé hægt að víkja frá þessu nema bíla-og hjólastæðisstefnu borgarinnar verði breytt með einhverjum hætti varðandi þessa lóð og slíkt sé þungt ferli.

Í lok janúar sendu Hagar bréf á Álfabakka 2 ehf. þar sem félaginu er gerð grein fyrir því hvaða afleiðingar þessar tafir hafi. Bréf Haga er áframsent á Óla Örn.

Í bréfinu segir að áætlanir um að flytja umfangsmikla starfsemi í Álfabakka séu í uppnámi, húsnæði fyrir starfsemina sem átti að flytjast þangað hafi verið selt og leigusamningum sagt upp. Hagar geti ekki búið við þá óvissu sem hafi skapast af ákvörðunum Reykjavíkurborgar því bílastæðafjöldinn á lóðinni nægi engan veginn.

Þetta séu tafir sem séu aðallega borginni að kenna. Álfabakka 2 ehf. er gefinn frestur til 23. febrúar til að klára þetta mál – verði bílastæðafjöldinn 100 eða færri sé Högum heimilt að óska eftir breytingum á leigusamningi, verði þau fleiri en 186 sé Álfabakka ehf. heimilt að leigja viðbótarrými til þriðja aðila.

Borgarstjóri upplýstur um bílastæðaágreining

Gögnin benda til þess að Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, hafi verið upplýstur um þetta uppnám. Í tölvupósti sem er dagsettur um miðjan febrúar og er frá Brynjólfi Þorkelssyni, einum eiganda Álfabakka 2 ehf., er Einar sagður hafa átt símtal við forstjóra Haga. „Þú ert búinn að segja við Finn forstjóra Haga að þetta náist í gegn en bara í síma, ekkert skriflegt eins og hann bað um,“ skrifar Brynjólfur í tölvupóstinum og lýsir þessu sem einu fáranlegasta máli sem hann hafi lent í á sínum ferli.

Daginn eftir fær Einar annan tölvupóst frá Brynjólfi þar sem honum er þakkað fyrir að sinna þessu mikilvæga máli, Brynjólfur trúi ekki öðru en að borgin og félagið leggi allt undir og komi með afdráttarlausa yfirlýsingu um að þetta sé komið. Viku seinna ítrekar hann beiðni sína til borgarstjóra um að staðfesta að framkvæmdaáformin við Álfabakka 2 standist, annars rifti Hagar leigusamningi sínum.

26. febrúar virðist flækjan hafa verið leyst; Halldór sendir tölvupóst til Óla Arnar og segist hafa heyrt að Finnur Oddsson, forstjóri Haga, sé farinn að ræða myndatökumóment með borgarstjóra þegar málið hafi verið afgreitt. „Með fyrirvara – Til hamingju!“ svarar Óli Örn. Verkefnið virðist samt stranda einhvers staðar í kerfinu, og í mars viðrar Halldór áhyggjur sínar af því að verkefnastjóri hjá byggingarfulltrúa borgarinnar sé í tveggja vikna fríi. Hann voni samt að þetta klárist á næsta fundi og þá „verði hægt að fara að huga að lúðrablæstri og borgarstjóra mómentinu,“ eins og Halldór orðar það í tölvupóstinum.

Rétt er að taka fram að hvergi í þessum gögnum kemur fram að svona myndamóment hafi verið rædd við borgarstjóra sjálfan.

Borgin verður „hugsi yfir útfærslunni“

Og borgarstjóramómentið kom aldrei því það er eins og borgin vakni upp við vondan draum í mars. Í tölvupósti sem verkefnisstjóri hjá skipulagsfulltrúa sendir á Halldór er sett spurningamerki við notkun, útlit og hönnun byggingarinnar, þetta komi á óvart miðað við þær væntingar sem hafi verið gerðar um starfsemi og hönnun bygginga á lóðinni. „Við erum hugsi yfir útfærslunni sem lögð er til á lóðinni,“ skrifar verkefnisstjórinn í tölvupóstinum.

Halldór svarar og segist orðlaus yfir þessum tölvupósti; hann hefði haldið að útlit og hönnun hefði í stórum dráttum legið fyrir á fyrri stigum og það sé óskiljanlegt að nú eigi að hefja samtal um notkun byggingarinnar. Áformuð notkun væri nokkuð sem búið væri að fara vandlega yfir með réttbærum fulltrúum borgarinnar.

Í þessum samskiptum virðist í fyrsta sinn farið að huga að íbúum, meðal annars í ljósi fyrirhugaðrar þungaumferðar. Ákveðið er að halda fund í byrjun apríl.

Eftir fund með skipulagsfulltrúa er fagaðili fenginn til að fara yfir úrbætur og kanna hvað sé hægt að gera til að fara í frekari útfærslur á endanlegri hönnun hússins. Stóra málið eru samt bílastæðin. Verkefnisstjóri hjá skipulagsfulltrúa segir í tölvupósti til Halldórs þetta allt vera háð viðunandi lóðarhönnun og grænu yfirbragði.

Hún ráðleggur honum að hafa samband við hæfileikaríkan og reyndan landslagsarkitekt sem geti fundið lausnir fyrir þá „Ekki spara við þennan þátt því hann mun gera mikið fyrir umhverfið og nágranna,“ skrifar verkefnastjórinn.

Funduðu til að leysa flækjur

Miðað við gögnin þvælist málið út og suður í kerfinu, það er beðið eftir samgöngumati og það þarf að uppfæra teikningar, og miðjan júní fær Halldór nóg, sendir tölvupóst á hóp fólks í borgarkerfinu, meðal annars borgarstjóra og skrifar: „Þessi staða er vægast sagt að valda erfiðleikum við rekstur verkefnisins og setja áformaða notkun í uppnám.“

Tveimur dögum seinna er Halldór boðaður á fund borgarstjóra, formanns umhverfis- og skipulagsráðs og fleiri. Fundurinn er haldinn í ráðhúsinu og er sagður vera haldinn til að gera tilraun til að leysa úr þeim flækjum sem þá voru til staðar. Halldór sjálfur virðist ekki vita hvaða flækjur þetta séu og það er lítið að finna um þennan fund í gögnunum.

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, vildi ekki veita viðtal að svo stöddu.

Heimild: Ruv.is