Home Fréttir Í fréttum Tugir Grindvíkinga íhuga málsókn vegna fasteignakaupa

Tugir Grindvíkinga íhuga málsókn vegna fasteignakaupa

33
0
Telma Sif Reynisdóttir lögmaður. RÚV – Kristinn Þeyr Magnússon

Eigendur tuga fasteigna í Grindavík íhuga málsóknir á hendur Náttúruhamfaratryggingum og fasteignafélaginu Þórkötlu vegna kaupa á fasteignum sínum. Fólkið telur að því hafi verið mismunað, tjón hafi ekki verið metið rétt og jafnræðisregla brotin.

<>

Þótt fasteignafélagið Þórkatla hafi gengið frá kaupum á upp undir þúsund fasteignum í Grindavík fer því fjarri að allir bæjarbúar hafi fengið lausn sinna mála. Eigendur á sjötta tug fasteigna hafa leitað til lögmanns og enn eru á fjórða tug mála útistandandi. Útlit er fyrir að mörg þeirra endi fyrir dómi.

Sum beinast gegn Þórkötlu sem hefur hafnað því að kaupa upp sumar eignir.

„Það var bætt við inn í lögin að fallist væri á uppkaup ef þau eru vegna aðstoðar við náinn fjölskyldumeðlim. Svo er svona túlkunaratriði núna hvað er náinn fjölskyldumeðlimur. Þannig að það eru alls konar túlkunaratriði þar,“ segir Telma Sif Reynisdóttir lögmaður.

En það eru einnig deilur um kaupverð.

Þórkatla kaupir eignir á sem nemur 95% af brunabótamati, en dæmi eru um að félagið hafi látið endurákvarða brunabótamat eftir að eigendur afhenda þeim eignina. Telma nefnir Grindvíkinga sem sömdu við Þórkötlu um kaup á eigninni og afhentu félaginu.

„Löngu eftir afhendingu eignarinnar fá þau bréf þess efnis að kaupverðið hafi verið endurákveðið, afsalsgreiðslan verði ekki innt af hendi og þeim sé gert að greiða til baka hluta af kaupverðinu,“ segir hún.

Þórkatla kaupir aðeins upp íbúðarhúsnæði. Aðrir fasteignaeigendur, til dæmis fyrirtæki og þeir sem voru með eignir í útleigu, geta leitað til Náttúruhamfaratryggingar til að fá tjón bætt.

Þá eru margir ósáttir við matið og telja það alltof lágt. Telma tekur dæmi af eign á Víkurbraut, sem liggur á annarri af stóru sprungunum og hefur verið girt af þar sem tjónamatið hljóðar upp á 470 þúsund krónur.

Í samráði við lögmann hafa sumir gripið til þess ráðs að fá sitt eigið mat á tjóninu.

„Við bíðum enn eftir niðurstöðunum en miðað við hljóðið í matsmönnum finnst mér líklegt að það muni svolitlu á,“ segir Telma. Matsmenn sem íbúar ráða til verksins meti tjónið jafnan hærra en þeir sem Náttúruhamfaratrygging ræður.

Margir bíða enn niðurstöðu á tjónmati Náttúruhamfaratryggingar til að geta ákveðið hvort það sé hagkvæmara að fá tjónið bætt þaðan eða selja eignina til Þórkötlu. En klukkan tifar og að óbreyttu rennur frestur til að selja Þórkötlu eignir út í lok mars. Telma segir mikilvægt að þetta úrræði verði framlengt.

Margir upplifi að þeir séu milli steins og sleggju vegna óvissunnar.

„Umbjóðendur okkar hafa alveg komist þannig að orðað það sé eins og að vera á skurðborði og það standa læknar yfir þér og rífast um það hver er ábyrgur læknir. Það virðist enginn ætla að bera ábyrgð.“

Heimild: Ruv.is