Kaupverðið nemur 299 milljónum króna en kaupsamningurinn byggir á að samþykkt verði skipulag fyrir 1.300 birtum fermetrum og 17-19 íbúðum.
Félagið Vesturbakki 9 ehf. hefur fest kaup á Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík af Þorpinu 5 ehf. fyrir 299 milljónir. Kaupsamningur þess efnis var undirritaður í október 2024 en um er að ræða byggingarétt á Bræðraborgarstíg 1 og 3 og fasteignir á sama stað.
Samkvæmt kaupsamningi fer afhending fram þegar deiliskipulag, sem er í kynningu hjá skipulagsráði Reykjavíkur, verður samþykkt en verði það ekki samþykkt fyrir 10. október 2025 getur kaupandi rift kaupunum.
Kaupsamningurinn byggir á að samþykkt verði skipulag fyrir 1.300 birtum fermetrum og 17-19 íbúðum. Miðað er við að kaupverð nemi 230 þúsund krónum fyrir hvern birtan fermetra og því getur endanlegt kaupverð hækkað eða lækkað eftir því hver endanlegur fermetrafjöldi verður.
Húsið sem stóð við Bræðraborgarstíg 1 var rifið fyrir rúmum þremur árum en bruni sem kom upp í húsinu þann 25. júní 2020 varð þremur að bana. Greint var frá því í byrjun árs 2021 að Þorpið – Vistfélag hefði gengið frá kaupum á fasteignum við Bræðraborgarstíg 1 og 3 af HD Verki fyrir 270 milljónir. Var þá stefnt á að nýr húsnæðiskjarni myndi rísa á svæðinu fyrir eldri konur samkvæmt Baba Yaga-hugmyndafræðinni.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun.
Heimild: Vb.is