Húnabyggð hefur beint þeim tilmælum til Landsnets að ekkert efni verði tekið úr árfarvegi í sveitarfélaginu vegna Blöndulínu þrjú. Allar framkvæmdir sem geti spillt lífríki vatnasvæðisins séu óæskilegar.
Skipulagsstofnun óskaði eftir umsögn Húnabyggðar vegna nýrra efnistökusvæða þar sem markmið Landsnets er að sækja jarðefni fyrir framkvæmdir við Blöndulínu þrjú. Ekki var gert ráð fyrir þessum námum í umhverfismati fyrir línuna þar sem efni í fjórum öðrum námum í Svartárdal var talið fullnægjandi.
Engin efnistaka verði úr virkum árfarvegi í sveitarfélaginu
Skipulagsstofnun lagðist gegn því að þessar nýju námur yrðu notaðar, vegna mögulegra áhrifa á fiskgengd og veiði í Svartá og því þyrfti að finna önnur efnistökusvæði í þeirra stað. Bent er á tvær námur; aðra sunnan við bæinn Bollastaði í Blöndudal, nánast beint undir fyrirhugaðri línuleið, en hina við Svartá í Svartárdal sunnan við bæinn Stafn.
Húnabyggð hafnar hins vegar áformum um efnistöku úr áreyrum við Stafn. Sveitarfélagið beinir jafnframt þeim tilmælum til Landsnets að við framkvæmdir vegna Blöndulínu þrjú verði tryggt að engin efnistaka verði úr virkum árfarvegi, hvorki í eða við straumvatn.
Vatnasvæði Svartár átt undir högg að sækja síðustu ár
Þar er meðal annars vitnað í umsögn Hafrannsóknastofnunnar sem mælir ekki með efnistöku úr virkum farvegi vatnsfalla og hvetur til þessa að leitað sé efnistöku utan þeirra.
Í bókun byggðarráðs Húnabyggðar segir að umrætt vatnasvæði hafi átt undir högg að sækja síðustu ár hvað varðar afkomu laxfiska og allar framkvæmdir sem geti haft neikvæð áhrif á lífríki vatnasvæðisins séu því óæskilegar.
Heimild: Ruv.is