Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra og formaður Flokks fólksins, segir að í stjórnarmyndunarviðræðunum hafi henni brugðið við það sem hún hélt vera jarðskjálfta en reyndist síðan vera hönnunargalli á Smiðju, nýrri byggingu Alþingis.
Þessu greinir Inga frá í áramótagrein sinni sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Hún segir að hönnunargallinn valdi því að fundarherbergin á fimmtu hæð titri í hvert sinn sem strætisvagnar eða önnur stór ökutæki aka yfir hraðahindrunina í Vonarstræti framan við bygginguna.
„Til gamans má geta þess að titringur þessi olli töluverðum áhyggjum þegar Volodimír Selenskí Úkraínuforseti heimsótti Ísland og fundaði með utanríkismálanefnd þingsins í sama fundarherbergi. Ekki er öll vitleysan eins.“
Inga setur þetta í samhengi við að fréttir sem sérfræðingar fjármálaráðuneytisins báru þeim „voru ekki í neinum takti við digurbarkalegar yfirlýsingar fráfarandi ríkisstjórnar um hið góða bú“.
„Afkomuhorfur ríkissjóðs eru verri en áætlað var og ekki er útlit fyrir að jafnvægi náist í ríkisbúskapnum á næstu árum nema með boðaðri ráðdeild og styrkri stjórn nýrrar ríkisstjórnar.“
Inga segir það fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að ná stöðugleika í efnahagslífi og stuðla að lækkun vaxta.
Greinina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is