Home Fréttir Í fréttum Fasteignafélögin gerðu það gott í verðbólgunni

Fasteignafélögin gerðu það gott í verðbólgunni

52
0
Fasteignafélög, Amaroq Minerals og Oculis voru sigurvegarar ársins í kauphöllinni á meðan Play og Sýn áttu erfitt uppdráttar. RÚV

Ávöxtun á hlutabréfamarkaði var umtalsvert betri hér á landi en í nágrannalöndunum. Fasteignafélög áttu sérlega góðu gengi að fagna.

<>

Heilt yfir var árið 2024 fjárfestum í kauphöllinni gjöfult og hækkaði úrvalsvísitalan um rúmlega 15 prósent sem er umtalsvert meiri ávxötun en í nágrannalöndunum. En fjárfestar þurftu að sýna þolinmæði því nær öll hækkunin varð á síðustu mánuðum ársins.

„Vextir byrjuðu að lækka í haust, eru búnir að lækka um 75 punkta eða núll koma sjötíu og fimm prósentustig og markaðurinn gerir ráð fyrir að það muni halda áfram og flestir gera ráð fyrir að vextir lækki um tvö til þrjú prósent á komandi ári,“ segir Alexander Hjálmarsson, greinandi hjá Akkur greining og ráðgjöf.

Helstu tíðindin á markaði í ár voru leyfisveiting bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitsins á gigtarlyfinu Simlandi sem lengi hafði verið beðið eftir, yfirtaka bandaríska matvælarisans JBT á Marel sem formlega gengur í gegn í byrjun næsta árs og umdeild kaup Landsbankans á TM af Kviku banka.

Grænar tölur hjá 20 af 28

Ef við skoðum þau fyrirtæki sem hækkuðu mest á árinu má sjá Amaroq Minerals sem malar gull í Grænlandi og sprotafyrirtækið Oculis sem var skráð á markað í vor. En fasteignafélögin – Heimar, Kaldalón og Reitir þeirra á meðal – áttu áberandi góðu gengi að fagna.

„Það er annars vegar að verðbólgan er búin að vera há. Fasteignafélögin, þá má segja að þau séu löng verðbólga. Þau eru með verðtryggða leigusamninga þannig að þau græða á verðbólgunni að ákveðnu leyti. Svo eru þau gríðarlega skuldsett þannig að lækkandi vextir og væntingar um frekari vaxtalækkanir koma þeim mjög vel.“

Af 28 skráðum félögum hækkuðu 20 í virði. Smásölurisarnir Festi og Hagar áttu góðu gengi að fagna, hækkun bankanna var öllu hóflegri og Icelandair náði að rétta mjög úr kútnum þegar líða tók á árið.

Play og Sýn valda vonbrigðum

En gengi Play og Sýnar var áberandi verst. „Þau náttúrlega hafa bæði því miður verið að valda ákveðnum vonbrigðum í sínum uppgjörum.“

Þá vekur athygli að fyrirtæki í sjávarútvegi áttu erfitt uppdráttar í ár. Þar er loðnunni líklegast um að kenna, ekkert var veitt í ár og nýjustu mælingar gefa ekki fyrirheit um loðnuvertíð á næsta ári. „Markaðurinn virðist alla vega vera að verðleggja félögin þannig að það verði enginn loðnukvóti.“

Binda vonir við Alvotech á nýju ári

Fjárfestar fara bjartsýnir inn í nýtt ár. Væntingar eru um að minnsta kosti þrjú ný fyrirtæki bætist við í kauphöllina og hafa Samkaup, Arctic Adventures og Íslandshótel verið nefnd í því samhengi en það síðastnefnda féll frá skráningu í ár. Þá tekur JBT við af Marel. Í könnun sem Alexander gerði meðal fjárfesta eru áfram gerðar miklar væntingar til Amaroq og Oculis á næsta ári. Flestir voru þó á því að Alvotech ætti mest inni. „Ætli það séu ekki bara þessi gríðarlegu plön um veltuaukningu. Félagið er búið að tapa miklu undanfarin en plönin ganga út frá því að það breytist hratt og muni að fara að skila hagnaði.“

Heimild: Ruv.is