Áform eru um að reisa nýtt hús við Skógasafn undir Eyjafjöllum, Þórðarstofu, þar sem minningu Þórðar Tómassonar, stofnanda og fyrsta safnvarðar Byggðasafnsins á Skógum, verður haldið á loft.
Einnig er áformað reisa nýja skemmu við Skógasafn sem gæti nýst bæði til sýninga í tengslum við samgöngusafn og sem geymsla fyrir safnmuni.
„Þórður ólst upp í Vallnatúni undir Eyjafjöllum, ekki langt frá Skógum, og bjó, eins og margir á þeim tíma, fyrst í torfbæ en á fjórða áratug síðustu aldar var byrjað að byggja þar steinsteypt íbúðarhús eftir staðlaðri ríkisteikningu.
Þetta voru einföld steypt hús, rúmlega 55 fermetrar að stærð. Hugmyndin er að byggja þannig hús, bæði til að heiðra ævistarf Þórðar við safnið og einnig til að gera sögunni skil varðandi híbýli þess tíma því þetta eru hús sem taka í raun við af torfbæjum,“ segir Tómas Birgir Magnússon, stjórnarformaður Skógasafns og systursonur Þórðar.
Tóku við skjalasafni Þórðar
Byggðasafnið á Skógum var stofnað árið 1949 að frumkvæði Þórðar Tómassonar og fyrsta sýningin fyrir almenning var í Skógaskóla sem tók til starfa það ár.
Safnið hefur stækkað mikið á síðustu áratugum og auk byggðasafnsins er þar nú m.a. rekið samgöngusafn, húsasafn og héraðsskjalasafn, safnverslun og kaffihús.
Samgöngusafnið, sem opnað var formlega árið 2002, hefur stækkað hratt og þarf nú meira rými. Á síðasta ári fékk Skógasafn arf eftir Hinrik Thorarensen, sem var mikill áhugamaður um fornbíla.
Hann arfleiddi safnið að öllum fornbílum sínum, bæði uppgerðum og óuppgerðum, varahlutum og geymsluhúsnæði við Esjumela sem nú er í söluferli.
Hóf ungur að safna
Þórður Tómasson lést árið 2022, á 101. aldursári. Árið 2019 gerði Skógasafn samning við hann um varðveislu á skjölum og bókum sem voru í hans einkasafni og eins að það yrði reist Þórðarstofa í minningu hans þar sem hans ævistarfi væri haldið á lofti og munir tengdust honum.
Þórður hóf þegar um fermingu að safna ýmsum munum og heimildum um mannlíf og sögu á Suðurlandi og skrifaði fjölda bóka um það efni og samkvæmt samkomulaginu verða þessar frumheimildir varðveittar á vegum safnsins og gerðar aðgengilegar.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í gær.
Heimild: Mbl.is