Home Fréttir Í fréttum Svona leyfði borgin græna „veggnum“ að rísa í Breiðholti

Svona leyfði borgin græna „veggnum“ að rísa í Breiðholti

93
0
RÚV – Víðir Hólm Ólafsson

13 breytingar á jafn mörgum árum hafa verið gerðar á deiliskipulagi í Suður-Mjódd og það var orðið erfitt fyrir lærða jafnt sem leika að fylgjast með. Þetta segir fyrrverandi forstjóri Skipulagsstofnunar.

<>

„Það er alveg ljóst í mínum huga að svona viljum við ekki byggja og að svona viljum við ekki að komið sé fram við íbúana í borginni.“ Þetta sagði Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, í kvöldfréttum RÚV.

Greiddi milljarð fyrir lóðina
Borgin hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að leyfa þessu að gerast, bæði af íbúum og minnihlutanum en líka Búseta sem byggði blokkina við Árskóga 7 eftir að hafa tekið skóflustungu við hátíðlega athöfn með þáverandi borgarstjóra. Núverandi borgarstjóri hefur lofað íbúunum að þarna verði gerðar breytingar; vöruskemman lækkuð eða umhverfið skreytt með gróðri. En þetta á sér allt sína forsögu.

Borgarstjóri vill lagfæra og breyta vöruhúsinu. Morgunblaðið segir frá því í gærmorgun að borgin ætli að funda með eigendum.
RÚV – Víðir Hólm Ólafsson

Álfabakki ehf, sem byggir vöruhúsið, greiddi tæpan milljarð fyrir lóðina; annars vegar hálfan milljarð fyrir byggingarrétt og hins vegar 400 milljónir fyrir gatnagerðargjöld.

Breytt deiliskipulag auglýst með „smáa letrinu“
Deiliskipulagi fyrir lóðina var breytt fyrir tveimur árum þar sem fjórar lóðir voru sameinaðar í eina. Ekkert var kveðið á um hvernig þetta verslunar- og þjónustuhúsnæði, eins og því er lýst í deiliskipulaginu, ætti að líta út heldur sagði eingöngu að heimilt væri að byggja fimmtán þúsund og sjö hundruð fermetra ofanjarðar á einni til fimm hæðum. Og að þetta yrði ein samfelld byggingarheild.

Forsvarsmenn Búseta sögðu í samtali við Spegilinn í gær að þeir hefðu ýmislegt við það að athuga hvernig þessi fyrirhugaða deiliskipulagsbreyting var auglýst á sínum tíma. Því þetta var talsverð breyting á deiliskipulaginu frá árinu 2015 þar sem gert var ráð fyrir blokkunum frá Búseta. Í stað fjögurra vöruhúsa var nú komið eitt stórt.

Á deiliskipulaginu frá árinu 2015 stendur blokk Búseta nær einu af þessu verslunar- og þjónustuhúsum en áður hafði verið áformað, meðal annars í deiliskipulagi frá árinu 2009. En á skipulaginu frá 2015 virtist líka vera gert ráð fyrir að verslunar- og þjónustuhúsið myndi ekki byrgja íbúum sýn, væri stallaskipt að miklu leyti.

Ein auglýsing um breytt deiliskipulag birtist í Lögbirtingablaðinu,önnur í Fréttablaðinu 21. júlí 2022. Sú í Fréttablaðinu birtist reyndar undir fyrirsögninni Bryggjuhverfi, dælustöð og það þurfti að lesa smáa letrið og töluvert mikið af því til að sjá auglýsingu um deiliskipulagsbreytingu.

Forsvarsmenn Búseta segja að hefðu þeir vitað af þessari breytingu á deiliskipulaginu hefðu þeir gert við hana athugasemd.

Byggingafulltrúi útilokaði næstum fimm hæða hús við blokkina
Hjón úr íbúð á fjórðu hæð við Árskóga 7 virðast hafa rekið augun í auglýsinguna og sendu athugasemd þar sem þau bentu á að ef þetta húsnæði yrði fimm hæðir myndi sú bygging loka þau inni og sú litla birta sem þau fengju úr norðri alveg hverfa. „Við vissum að þarna kæmi atvinnuhúsnæði en kannski ein til tvær hæðir á þeim hluta sem liggur meðfram Árskógum,“ sagði í bréfi hjónanna.

Þetta útlit á vöruhúsinu og það hvernig þetta myndi hafa áhrif á íbúa hefði ekki átt að koma neinum á óvart.
RÚV – Víðir Hólm Ólafsson

Björn Eðvarsson, verkefnastjóri hjá borginni, benti þá á í svari fyrir hönd skipulagsfulltrúa og umhverfis-og skipulagssviðs, að í gildi væri deiliskipulag þar sem gert væri ráð fyrir töluverðri uppbyggingu á umræddri lóð.

Það væri heimilt að byggja fimmtán þúsund og sjö hundruð fermetra ofanjarðar en hjónin þyrftu ekki að hafa áhyggjur af fimm hæða byggingu, nánast væri hægt að fullyrða að slíkt gæti ekki gerst þar sem leyfilegt byggingarmagn væri ekki nægilegt. Deiliskipulagið var í framhaldinu samþykkt óbreytt en um leið tekið fram að hönnun væru ekki lokið, hún væri í undirbúningi.

Fyrst það er leyfi fyrir bílasölu þá má líka vera kjötvinnsla
Í janúar í fyrra var síðan sótt um leyfi til að starfrækja kjötvinnslu á lóðinni, ekki aðeins í litlum hluta húsnæðisins heldur rúmlega fjórðungi þess eða á þrjú þúsund fermetra svæði.

Skipulagsfulltrúi gaf á það grænt ljós. Hann sagði að í þessu tilfelli skipti umfang og staðsetning máli, umfangsmikill matvælaiðnaður ætti almennt að fara fram á athafnasvæði en á miðsvæðum væri hægt að vera með hreinlega atvinnustarfsemi. Léttur iðnaður, eins og kjötvinnsla gæti fallið þar undir og í Suður-Mjódd væri heimilt að vera með landfreka starfsemi eins og bílasölur. Ekki væru því gerðar skipulagslegar athugasemdir við kjötvinnslu og pökkunarstöð kjötafurða.

„Grænn veggur“ rís sem átti ekki að koma neinum í opna skjöldu
Í lok október í fyrra gaf byggingarfulltrúi svo út byggingarleyfi fyrir vöruhúsinu. Þar segir að þetta verði stálgrindarhús, tveggja hæða að hluta, klætt steinullarsamlokueiningum með málmklætt yfirborð. Og þegar teikningar að húsinu eru skoðaðar á borgarvefsjá má sjá að byggingin hefði ekki átt að koma neinum hjá borginni á óvart, þvert á móti (hægt er að hlaða teikningum af húsinu niður).

Á fyrstu hæð verða vöruhús, verslun og léttur iðnaðar en svo skrifstofur á annarri hæð. Það má alveg velta því fyrir sér hvort vöruhús, sem af myndum af dæma er næstum jafnhátt og fjögurra hæða fjölbýlishús, sé raunverulega tveggja hæða.

Forsvarsmenn Búseta sögðu við Spegilinn að þar sem skilmálarnir í deiliskipulaginu fyrir lóðina hefðu verið svo víðir hefði verið ómögulegt fyrir þá að gera sér grein fyrir hvers konar hús myndi þarna rísa fyrr en það var risið. Búseti er með erindi í undirbúningi til borgarinnar – það er þeirra mat að íbúar verði að geta treyst stjórnvaldinu til að koma í veg fyrir að svona geti gerst. Fram kom í Morgunblaðinu í morgun að borgin ætli að funda með eigendum hússins á næstunni.

Heimild: Ruv.is