Home Fréttir Í fréttum Búseti krefst breytinga á vöruhúsinu

Búseti krefst breytinga á vöruhúsinu

98
0
Útsýnið úr Árskógum 7 er ekki eftirsóknarvert þessa dagana. Kristinn Þeyr Magnússon – RÚV

Leigufélagið Búseti ætlar ekki að sætta sig við ellefu þúsund fermetra vöruhús steinsnar frá fjölbýlishúsi sínu í Breiðholti. Félagið gerir kröfur um breytingar.

<>

Framkvæmdastjóri Búseta segir með ólíkindum að ellefu þúsund fermetra vöruhús í Breiðholti hafi farið í gegnum nálarauga Reykjavíkurborgar. Félagið muni ekki sætta sig við húsið í þeirri mynd sem það er og ætlar að leggja fram kröfugerð á morgun.

Búseti á fjölbýlishúsið í Árskógum sem stendur við hlið vöruhússins við Álfabakka 2 í Mjódd. Íbúar eru vægast sagt ósáttir enda er útsýni þeirra í dag ekkert nema dökkgrænir veggir vöruhúss sem er fjórtán metrum frá heimilum þeirra.

„Það er með með ólíkindum að þetta mannvirki skuli hafa farið í gegnum nálarauga embættismanna og skipulags. Þetta er mannvirki sem á engan veginn heima á þessum stað,“ segir Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta.

Hann segir að Búseti muni ekki sætta sig við vöruhúsið í þeirri mynd sem það er.

„Við erum að vinna með okkar lögmönnum og við eigum fund á morgun um málið. Þá munum við mynda okkar aðgerðaráætlun hvernig við ætlum að bregðast við.“

RÚV – Víðir Hólm Ólafsson

Bjarni segir aðspurður að ekki sé útilokað að gera kröfu um að borgin kaupi íbúðirnar í Árskógum.

„Við munum þurfa að skoða þá stöðu, eins og borgarstjóri segir að þá er þetta algjörlega óviðunandi ástand. Svo er þetta reyndar þannig að það er að mér skilst gert ráð fyrir kjötvinnslu þarna. Þá auðvitað skoiðar maður gildandi deiliskipulag og það virðist ekki gera ráð fyrir því.“

Kjötvinnslan á að vera í hluta hússins, í allt að þrjú þúsund fermetrum af ellefu þúsund fermetrum, eða rúmlega fjórðungi. Samhliða því er búist við talsverðri umferð flutningabíla, bæði með hráefni og fullunnar vörur.

„Það er mikil þungaumferð sem er líkleg þarna í kringum þetta hús og í gegnum viðkvæmt íbúðahverfi í gegnum Árskóga en það er líka auðvitað eitthvað sem þarf að ígrunda í þessu samhengi,“ segir Bjarni.

Ótal breytingar hafa verið gerðar á skipulaginu og Bjarni Þór segir að ómögulegt hafi verið að fylgjast með þeim.

„Viðmiðin eru svo víð í þessu samhengi sem gilda um verkefnið að það var ekki nokkur leið að átta sig á að umfang hússins yrði eins og það er í raun í dag.“

Heimild: Ruv.is