Stjórn Skólastrætis ehf. hefur ráðið Guðmund Örn Óskarsson í starf framkvæmdastjóra félagsins.
Skólastræti er félag í eigu Tækniskólans, skóla atvinnulífsins, að því er segir í tilkynningu.
Guðmundur Örn er með meistaragráðu í iðnaðar- og rekstrarverkfræði frá Álaborgarháskóla og á að baki fjölbreyttan starfsferil sem stjórnandi í atvinnulífinu. Hann hefur sinnt ráðgjafastörfum síðastliðið ár en leiddi rekstrarsvið Controlant í gegnum gríðarlegan vöxt á tímum heimsfaraldurs. Þá gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs hjá Alvogen/Alvotech samstæðunni í 7 ár og þar áður 10 ár hjá Össuri/Emblu.
„Starfsemi Tækniskólans er nú dreifð á níu mismunandi byggingar víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Með byggingu nýs Tækniskóla við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði er ætlunin að sameina alla starfsemi skólans á einum stað, í framúrskarandi og nútímalegu húsnæði, sem ætlað er að efla iðn-, starfs- og tækninám á Íslandi enn frekar. Áætlað er að framkvæmdum verði lokið árið 2029,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Heimild: Mbl.is