Stjórnendur verktakafyrirtækja sem starfa við verklegar framkvæmdir á vegum hins opinbera telja að með auknum fyrirsjáanleika í opinberum framkvæmdum, minni sveiflum í umsvifum opinberra framkvæmda á milli ára og skilgreindari undirbúningstíma megi draga úr kostnaði í opinberum framkvæmdum.
Kemur þetta fram í könnun sem gerð var meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins (SI) sem þátt taka í útboðum af þessu tagi.
91% stjórnenda segja að ófyrirsjáanleiki í opinberum framkvæmdum skili auknum kostnaði, þ.e. hærri tilboðum í útboðum hins opinbera. Aðeins 3% vilja meina að svo sé ekki.
Stjórnendur segja að fyrirtæki þeirra gæti boðið nær 11% lægra í opinberar framkvæmdir ef fyrirsjáanleiki væri til staðar. Til að setja þetta í samhengi eru heildarfjárfestingar í innviðum hins opinbera áætlaðar 175 milljarða króna í ár. Um 11% lækkun á þessum kostnaði væri því um 19 milljarða króna sparnaður, að því er segir í greiningu SI.
„Má nefna í þessu sambandi að viðhald hins opinbera á vegakerfinu er áætlað um 13 milljarða króna í ár en þörfin er 18 milljarða króna samkvæmt Vegagerðinni. Með því að auka fyrirsjáanleika og gera áætlanir sem standast lengra fram í tímann gæti hið opinbera, svo dæmi sé tekið, skapað svigrúm til að mæta uppsafnaðri viðhaldsþörf vegakerfisins.“
Flestir telja stuttan undirbúningstíma valda kostnaði
Um 88% stjórnenda segja að of stuttur undirbúningstími valdi auknum kostnaði við verklegar framkvæmdir á vegum hins opinbera en 9% telja að svo sé ekki.
„Segja stjórnendurnir að þeir gætu boðið tæplega 10% lægra í opinberar framkvæmdir ef nægur undirbúningstími væri til staðar. Það eru tæplega 18 milljarðar króna af ofangreindri fjárfestingu hins opinbera í innviðum í ár.“
Auk þessa telja 91% stjórnenda að miklar sveiflur í umsvifum opinberra framkvæmda á milli ára skili auknum kostnaði. Aðeins 6% telja það ekki hafa áhrif á kostnað í útboðsverkum á vegum hins opinbera.
Yfir 70% bera lítið traust til áforma stjórnvalda
Mikill meirihluti stjórnenda verktakafyrirtækja bera lítið traust til áforma stjórnvalda um innviða- og húsnæðisuppbyggingu eða 71% þeirra. 53% stjórnenda segjast bera mjög lítið traust til fyrirheita stjórnvalda og 18% lítið.
„Sem dæmi má nefna að á Útboðsþingi SI árið 2023 voru kynnt áform níu opinberra aðila um fyrirhuguð útboð fyrir 173 milljarða króna á því ári en í lok ársins voru þessir aðilar aðeins búnir að bjóða út verkefni fyrir 88 milljarða króna. Útboð síðasta árs voru því 84 milljörðum króna eða 49% minni en boðað var á Útboðsþingi SI í upphafi ársins.
Þetta er mikill munur og undirstrikar að fyrirheit opinberra aðila um útboð ber að taka með fyrirvara. Við þetta má síðan bæta metnaðarfullum áformum í húsnæðisáætlun, samgönguáætlun, jarðgangaáætlun og samgöngusáttmála stjórnvalda sem ekki hafa gengið eftir á síðustu árum. Það er því skiljanlegt í ljósi sögunnar að stjórnendur sem starfa á opinberum útboðsmarkaði bera ekki mikið traust til áforma stjórnvalda á þessu sviði.“
Heimild: Vb.is