Home Fréttir Í fréttum Ný brú á Þjórs­á talin kosta um fimmtung af verði Ölfusárbrúar

Ný brú á Þjórs­á talin kosta um fimmtung af verði Ölfusárbrúar

51
0
Nýja Þjórsárbrúin kemur skammt ofan við eyjuna Árnes, sem sést ofarlega fyrir miðri mynd. Efst í kvíslinni hægra megin er Búðafoss. Vegagerðin

Ný Þjórsárbrú við Árnes verður boðin út fljótlega eftir áramót. Hún mun ásamt tengivegum sennilega kosta vel innan við fjórðung af því sem Ölfusárbrúin kostar.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 voru sögð tíðindi af annarri brú yfir annað stórfljót á Suðurlandi, nýrri brú yfir Þjórsá á móts við þorpið Árnes. Sýnt var nýtt myndband Vegagerðarinnar af brúnni og vegum sem henni fylgja.

Þjórsárbrúin tengist fyrirhugaðri Hvammsvirkjun. Hún verður tengd við Þjórsárdalsveg með hringtorgi skammt frá Árnesi. Þaðan verður nýr Búðafossvegur lagður tveggja kílómetra leið Árnesmegin að brúarstæðinu.

Vegurinn að nýju Þjórsárbrúnni mun liggja frá hringtorgi við þéttbýlið í Árnesi. Fjær til hægri má sjá Skarðsfjall.
Vegagerðin

Nýja brúin verður byggð um einn kílómetra ofan við fossinn Búða og eyjuna Árnes, sem skiptir Þjórsá í tvær kvíslar. Sjálf brúin verður 204 metra löng en Búðafossvegur alls 7,4 kílómetra langur. Brúin og vegagerðin verða boðin út í einu lagi fljótlega á næsta ári, samkvæmt upplýsingum frá Einari Má Magnússyni, verkefnastjóra á framkvæmdadeild Vegagerðarinnar.

Þótt verkið fylgi gerð Hvammsvirkjunar er það Vegagerðin sem býður það út og hefur umsjón með því. Landsvirkjun leggur út fyrir framkvæmdakostnaði en gert ráð fyrir að Vegagerðin endurgreiði hann þegar fjárframlag fæst á samgönguáætlun og fjárlögum.

Horft yfir Þjórsá úr Árnessýslu yfir í Rangárvallasýslu. Brúin verður rétt rúmlega tvöhundruð metra löng.
Vegagerðin

Heildarkostnaður við smíði brúarinnar og gerð Búðafossvegar er áætlaður á bilinu þrír til fjórir milljarðar króna. Til samanburðar má geta þess að kostnaður við Ölfusárbrú og tengivega er áætlaður 17,9 milljarðar króna, þar af er 3,6 milljarða króna fjármagnskostnaður.

Ljóst þykir að Þjórsárbrúin verður mikil samgöngubót á Suðurlandi og styttir hún vegalengdir milli sveitabæja í uppsveitum Árnes- og Rangárvallasýslu um tugi kílómetra. Frá brúnni og að Landvegi Rangárvallamegin verður nýi vegurinn um fimm kílómetra langur og tengist núverandi þjóðvegi á móts við bæinn Minnivelli.

Búðafossvegur verður alls 7,4 kílómetra langur. Hægra megin má sjá fyrirhugaðan áningarstað við Búðaröðina, sem er jökulruðningshryggur.
Vegagerðin

Einn áningarstaður verður gerður Landmegin á Búðafossvegi. Að sögn Einars Más býður hann upp á útsýni að „Búðaröðinni“ sem eru jökulruðningshryggir og sést þaðan vel til Heklu.

Verktími er áætlaður um þrjú ár og stefnt að því að brúin verði opnuð umferð í árslok 2027.

Þess má geta að Landsvirkjun heldur kynningarfundi um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir fyrir íbúa í Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi síðdegis í dag og á morgun. Þar munu fulltrúar Vegagerðarinnar einnig skýra frá áformaðri vegagerð þeim tengdum.

Fundurinn í Rangárþingi ytra verður haldinn á Landhóteli við Landveg í dag, þriðjudag, klukkan 17:30. Fundurinn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi verður haldinn í félagsheimilinu Árnesi á morgun, miðvikudag, klukkan 17:30.

Heimild: Visir.is