Home Fréttir Í fréttum Dýrkeyptar tafir á Hornafirði: Verktaki með hálfkaraðar teikningar í höndunum

Dýrkeyptar tafir á Hornafirði: Verktaki með hálfkaraðar teikningar í höndunum

258
0
Tölvumynd af nýju hjúkrunarheimili á Hornafirði. Skjólgarður á Höfn – BASALT Arkitektar

Miklar og dýrar tafir hafa orðið á byggingu hjúkrunarheimilis á Hornafirði og hefur verktakinn farið fram á bætur. Byggingin þykir flókin og verkteikningar voru ekki tilbúnar þegar framkvæmdir hófust.

<>

Framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Hornafirði eru komnar 700 milljónum fram úr áætlun. Miklar tafir hafa orðið á verkinu vegna þess hve hönnun hússins er flókin og teikningar voru ekki tilbúnar þegar framkvæmdir hófust.

Forstjóri Framkvæmdasýslu ríkiseigna telur að hönnunarsamkeppni sé ekki endilega rétta leiðin við byggingu hjúkrunarheimila.

Brösuglega gekk að hefja framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Hornafirði. Ákveðið var að fara í hönnunarsamkeppni, glæsileg teikning var valin en þegar verkið var boðið út reyndust tilboð svo há að bakkað var með framkvæmdina. Leitað var leiða til að draga úr kostnaði og samið við fyrirtækið Húsheild um að byggja heimilið úr innfluttum timbureiningum.

Töfin í verkinu gæti orðið 15 eða 16 mánuðir
Heildarkostnaður var áætlaður tæpir 1,9 milljarðar við að reisa viðbyggingu með 20 nýjum herbergjum og breyta eldra húsnæði með 10 herbergjum. Ríkið borgar mest en sveitarfélagið 15% í sjálfu hjúkrunarheimilinu. Það ber allan kostnað af eldhúsi sem líka verður notað fyrir skólamáltíðir og einnig við kapellu og líkhús. Því verður heildarhlutur sveitarfélagsins hærri.

Nú er ljóst að verkið verður talsvert dýrara og kostnaður en nú áætlaður tæpir 2,6 milljarðar. Tafir hafa orðið vegna þess hve byggingin er flókin og teikningar voru ekki tilbúnar þegar verkið fór af stað. Unnið er af fullum krafti þessa dagana en nýbyggingin var langt í frá tilbúin í janúar á þessu ári eins og til stóð. Líklega verður töfin 15 eða 16 mánuðir. Þetta þýðir að launakostnaður er mun meiri en áætlað var. Húsheild hefur farið fram á tafabætur en fulltrúi fyrirtækisins vildi ekki tjá sig um málið að sinni.

Ekki alltaf verjandi að framleiða „mannvirkjaleg listaverk“
Óskar Jósefsson, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkiseigna, segir að læra megi af framkvæmdinni. Hönnunarsamkeppnir eigi við þegar byggja eigi einstök hús sem hafi ákveðna stöðu en ekki þegar byggja þurfi mörg ný hjúkrunarheimili um land allt.

„Þar sem við erum að byggja hús fyrst og fremst til þess að anna eftirspurn sem fer hratt vaxandi þá þurfum við einfaldar, hagkvæmar lausnir sem eru góðar í rekstri og góðar í byggingu. En kannski ekki hús sem eru mannvirkjalegt listaverk. Með tilliti til byggingatæknilegra þátta að það sé einfalt og hagkvæmt að byggja húsin,“ segir Óskar.

Heimild: Ruv.is