Home Fréttir Í fréttum Rafmagn úr vindmyllum við Vaðöldu eftir tvö ár

Rafmagn úr vindmyllum við Vaðöldu eftir tvö ár

56
0
Framkvæmdir við vindorkuver í Búrfellslundi við Vaðöldu eru hafnar. Gangsetning á að hefjast eftir tvö ár. RÚV - Grafík – Kristrún Eyjólfsdóttir

Landsvirkjun hefur hafið framkvæmdir við 120MW vindorkuver í Búrfellslundi við Vaðöldu.

<>

Framkvæmdir við 120 megavatta vindmyllugarð í Búrfellslundi við Vaðöldu hófust fyrr í þessum mánuði. Áformað er að byrja gangsetningu í áföngum eftir tvö ár og að framkvæmdum ljúki ári síðar

Þetta kom fram í máli Ásbjargar Kristinsdóttur framkvæmdastjóra á haustþingi Landsvirkjunar á Selfossi í dag. Reistar verða 28 vindmyllur sem verða 150 metrar í hæstu stöðu, eða tvöfalt hærri en þær myllur sem reistar voru í rannsóknarskyni.

Flutningar hefjast vorið 2026. Til þess þarf 10 flutningabíla með sérútbúnum vögnum sem flytja myllurnar frá Þorlákshöfn. 22 kílómetra vegur verður lagður innan framkvæmdasvæðisins. Til að tryggja öryggi vegfarenda er gert ráð fyrir að flutningarnir verði að næturlagi.

Flókið fyrir lítið sveitarfélag
Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Rangárþings ytra, segir að framkvæmdir af þessari stærðargráðu séu flóknar fyrir lítið sveitarfélag.

„Skipulags- og leyfismálin snúa að okkur. Við erum ekki risastórt sveitarfélag og kannski ekki með mjög öflugt skipulagsembætti. Þess vegna er þetta mikil áskorun að gera alla þessa hluti rétt.

Ég held að þetta hafi tekist vel þó svo að kæruleiðirnar séu margar og leyfismálin flókin þá held ég að þetta sé í höfn með vindmyllurnar, alla vega í bili. Tryggja þarf nærsamfélögum sinn hlut af ágóðanum. Þess vegna þarf að ganga frá tekjuskiptingu til sveitarfélaganna“

Alþingi þvælist fyrir ekki sveitarfélögin
„Vindmyllur eru ekki alveg nýjar fyrir okkur í Rangárþingi ytra. Það voru reistar vindmyllur í Þykkvabæ og í kjölfarið þegar menn fóru að endurskoða aðalskipulagið voru settir skilmálar þar sem skoðuð yrðu hagræn áhrif framkvæmdanna.

Þar komum við að vandræðaganginum að skapa lagaumgjörð um vindorkuna sem hefur setið föst í þinginu í 7-8 ár. Af þeim sökum getum við ekki áttað okkur á hagrænum áhrifum á samfélagið fyrr en umgjörðin verður kláruð. Þess vegna er ég alveg ósammála orkumálaráðherra sem segir sveitarfélögin þvælast fyrir“, segir Eggert.

„Förum varlega og vöndum okkur“
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra hvetur til þess að hægt verði farið í sakirnar.

„Við skulum meta reynsluna af þeim tveimur kostum sem eru á dagskrá áður en ráðist verður í frekari uppbyggingu vindorkuvera“, sagði ráðherra á haustráðstefnunni.

„Vindorkuver eiga að vera í meirihlutaeigu Íslendinga líkt og þekkist í sjávarútvegi. Við þurfum að meitla í löggjöf að heimilin njóti ávaxtanna. Brettum upp ermar og hefjumst handa en förum varlega og vöndum okkur“.

Heimild: Ruv.is