Home Fréttir Í fréttum Vísbendingar um samdrátt í byggingariðnaði

Vísbendingar um samdrátt í byggingariðnaði

169
0
Mynd: SI.is

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í ViðskiptaMogganum sem segir vísbendingar um samdrátt í byggingariðnaði og að fyrirhugaðar stórframkvæmdir við nýjan Landspítala breyti ekki stóru myndinni en í fréttinni kemur fram að  fyrirhuguð uppbygging við spítalann verði stærsta framkvæmd sinnar tegundar á Íslandi þar sem um 600-700 manns muni að hámarki starfa við verkefnið.

<>

Ólíklegt að verði hrein viðbót við fjölda starfandi byggingargeiranum

Ingólfur segir aðspurður að þótt verkefnið sé vissulega umfangsmikið á íslenskan mælikvarða beri að horfa til þess að um 20 þúsund manns starfi í byggingargeiranum. „Þessi fjölgun samsvarar um 1,5-2% af heildarfjölda starfandi í byggingariðnaði um þessar mundir.

Verktakar sem koma að verkefninu hafa gert áætlanir um þetta. Það verður ekki um hreina viðbót að ræða hjá þeim þar sem nýttir verða starfsmenn sem eru að ljúka öðrum verkefnum. Þá er einnig ólíklegt að þetta verði hrein viðbót við fjölda starfandi í greininni.“

ViðskiptaMogginn, 30. október 2024.

Vinnuafl að losna til annarra verka innan greinarinnar

Í fréttinni er eftirfarandi haft eftir Ingólfi: „Við sjáum vísbendingar um samdrátt í uppbyggingu íbúða, sérstaklega á fyrstu framvindustigum, og sjáum það líka í verkefnastöðu hjá arkitektum og verkfræðingum, sem eru þeir fremstu í ferlinu.

Vinnuafl er því að losna til annarra verka innan greinarinnar. Uppbyggingin við nýja Landspítalann kemur því kannski á ágætum tíma hvað það varðar.

Við erum ekki á hátindi vaxtarins eins og fyrir einu til tveimur árum, þegar vöxturinn var hvað mestur. Innviðaframkvæmdir vega vissulega þungt í byggingariðnaði og mannvirkjagerð. Veigamesti þátturinn er hins vegar uppbygging á atvinnuhúsnæði.“

Heimild: SI.is