Home Fréttir Í fréttum Hlutdeildarlán dugðu fyrir 61 í­búð

Hlutdeildarlán dugðu fyrir 61 í­búð

50
0
Hlutdeildarlán fást aðeins veitt til kaupa á nýbyggingum. Vísir/Vilhelm

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur lokið mati á umsóknum sem bárust um hlutdeildarlán í október og samþykkt umsóknir til kaupa á 61 íbúð. Heildarfjárhæð lánanna nam 796,5 milljónum króna, en 800 milljónir króna voru til úthlutunar í mánuðinum. Umframeftirspurn nam rúmum milljarði.

<>

Í tilkynningu á vef HMS segir að ekki hafi komið til þess að draga þyrfti úr umsóknum, eins og útlit hafi verið fyrir um stund, en töluverð umframeftirspurn hafi verið eftir lánunum.

Eingöngu hafi verið afgreiddar umsóknir þar sem staðfest kauptilboð lá fyrir, en þar af hafi 61 umsókn verið í fyrsta forgangsflokki.

Einn fimmti til kaupa úti á landi

Alls hafi HMS borist 145 umsóknir um hlutdeildarlán á umsóknartímabilinu frá 4. október til og með 21. október. Af þeim umsóknum sem bárust hafi 112 verið með samþykktu kauptilboði og 33 umsóknir verið án kauptilboðs. Heildarfjárhæð umsókna hafi verið um 1.870 milljónir króna og þar af umsóknir með samþykktu kauptilboði samtals um 1.447 milljónir króna.

Í forgangi hafi verið umsóknir þar sem staðfest kauptilboð lá fyrir, auk þess sem miðað hafi verið við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20 prósent veittra hlutdeildarlána veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.

Helmingi minna í boði næst

Umsækjendum sem voru utan fyrsta forgangsflokks og komust því ekki til umfjöllunar að þessu sinni verði boðið að flytja umsóknir sínar yfir á næsta tímabil eða sækja um að nýju.

Opnað verði aftur fyrir nýtt umsóknartímabil hlutdeildarlán fimmtudaginn 7. nóvember og umsóknartímabilið standi til 18. nóvember. Til úthlutunar fyrir tímabilið verði 400 milljónir króna.

Heimild: Visir.is