Home Fréttir Í fréttum Íbúðabyggð skipulögð við Selfossbæina

Íbúðabyggð skipulögð við Selfossbæina

104
0
Bragi Bjarnason, bæjarstjóri og Jörundur Gauksson, lögfræðingur landeiganda, undirrituðu viljayfirlýsinguna. Ljósmynd/Árborg

Sveitarfélagið Árborg og eigandi Selfoss 1 hafa undirritað viljayfirlýsingu um jarðhitaréttindi í landi Selfossbæja og vegna áforma um deiliskipulag fyrir íbúðabyggð.

<>

Selfoss 1 er hluti af svokölluðum Selfossbæjum og þar áformar landeigandinn að deiliskipuleggja íbúðabyggð á 2,7 hektara svæði úr jörðinni, eins og sjá má á yfirlitsmynd neðst í fréttinni. Landeigandi hefur að auki lýst yfir áhuga á að vinna með sveitarfélaginu að aukinni jarðhitaleit á jörðinni.

Málið var tekið fyrir í bæjarráði fimmtudaginn 3. október og viljayfirlýsingin samþykkt samhljóða. Með henni eru aðilar sammála um að vinna áfram að þessum málum en Selfossveitur munu í framhaldinu vinna með landeiganda að samkomulagi um jarðhitaréttindi, rannsóknir og hugsanlega vinnslu á heitu vatni.

Yfirlitsmynd af nýrri íbúðabyggð við Þóristún og Selfossbæi.

Á svæðinu við Þóristún og Selfossbæi er horft er til lágreistrar byggðar með rúmlega tuttugu einbýlishúsalóðum og mögulega par- og raðhúsalóðum.

„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir báða aðila. Sveitarfélagið getur í samráði við landeiganda tryggt aukið svæði innan Selfoss til leitar á heitu vatni og landeigandi unnið áfram að spennandi framtíðarskipulagi á hluta jarðarinnar,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri.

Heimild: Sunnlenska.is