Eignarnám á spildu úr landi á vegakafla á Axarvegi milli Berufjarðarbotns og Merkjahryggs ofarlega á heiðinni skal kosta Vegagerðina rúmlega 56 milljónir króna samkvæmt úrskurði matsnefndar þar um. Eigendur landsins fóru fram á tæplega helmingi hærri upphæð.
Vegagerðin hefur um hríð undirbúið framkvæmd heilsársvegar yfir Öxi sem búið er að kalla eftir um áratugaskeið austanlands.
Ekki aðeins styrkir það samgöngur milli byggðakjarna á suður- og miðsvæði Austurlands, sem var ein meginástæða sameiningar nokkurra sveitarfélaga undir nafni Múlaþings fyrir fáum árum, heldur og styttir það hringveginn sjálfan að vetrarlagi um rúma 60 kílómetra. Síðast en ekki síst er Axarvegur hættulegasti vegkafli landsins í dreifbýli samkvæmt úttekt Samgöngustofu.
Semja þarf um stóra kafla
Þar sem nýr og betri vegur mun aðeins að nokkru leyti fylgja núverandi fjallvegi var nauðsynlegt að ná samkomulagi við landeigendur á svæðinu vegna nýs vegstæðis og töluvert langur kafli tilheyrir jörðunum Berufjörður og Berufjörður 2.
Mat Vegagerðin það svo að gera þyrfti eignarnám á 40 metra breiðri spildu alla leið úr botni Berufjarðar að Merkjahryggnum en jafnframt nauðsynlegt að taka eignarnámi 211 þúsund rúmmetra fyllingarefnis, 147 þúsund rúmmetra styrktarlagsefnis, 3 þúsund rúmmetra burðarlagsefnis og 6 þúsund rúmmetra slitlagsefnis á landi jarðanna. Gerði Vegagerðin landeigendum tilboð upp á tæpar 46 milljónir króna auk rúmlega einnar milljónar fyrir rask og ónæði.
Móttilboð landeigenda var töluvert fjarri upphæðum Vegagerðinnar. Krafa var gerð um bætur upp á sléttar 100 milljónir króna og sá Vegagerðin sinn kost vænstan að kalla til matsnefnd eignarnámsbóta.
Niðurstaða hennar er endanleg og telur nefndin eðlilega upphæð í eignarnámsbætur vera rétt rúmar 56 milljónir eða 10 milljónum króna hærri upphæð en Vegagerðin bauð upphaflega.
Heimild: Austurfrett.is