Fara ber varlega í áformum um þéttingu byggðar í Grafarvogi og er samhljómur um það í íbúaráði Grafarvogs, enda hverfið skipulagt með það í huga að byggð sé sums staðar þétt en annars staðar ekki og græn svæði víða að finna í hverfinu.
Þetta segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem sæti á í íbúaráði hverfisins.
Borgaryfirvöld hafa uppi áform um stórfellda þéttingu byggðar í hverfinu með byggingu um 500 íbúða á grænum svæðum í Grafarvogi og hafa fjölmargir íbúar hverfisins lýst þungum áhyggjum sínum vegna þessara áforma. Haldinn var íbúafundur í hverfinu á mánudagskvöld þar sem það kom fram, að sögn Kjartans.
Óvönduð og ómarkviss vinnubrögð
„Að mínu mati hafa vinnubrögð borgarinnar í málinu verið óvönduð og ómarkviss. Á það ekki síst við um það hvernig borgarstjóri kynnti þéttingaráform sín í hverfinu í byrjun sumars með miklum bægslagangi og yfirlýsingum. Eðlilegra væri að byrja á samráði við íbúa í slíkri vinnu,“ segir Kjartan í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn fagni áformum um að til standi að ráðast í frekari uppbyggingu í úthverfum borgarinnar, þar sem innviðir þola aukna byggð.
„Ef vel er staðið að verki getur slík uppbygging styrkt hverfin verulega og skapað skilyrði fyrir aukinni verslun og þjónustu.
Það er þó algert skilyrði að slíkt húsnæðisátak verði ekki þvingað fram á forsendum ofurþéttingar heldur útfært í góðri sátt og með raunverulegu samráði við íbúa viðkomandi hverfa,“ segir Kjartan og tekur fram að varðandi Grafarvogshverfið þurfi að taka ríkt tillit til staðaranda hverfisins og hagsmuna íbúanna, t.d. með því að ganga ekki á græn svæði sem mörg hver séu rótgróin og ein helsta ástæða þess að fólk hafi valið hverfið til búsetu.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í gær.
Heimild: Mbl.is