Home Fréttir Í fréttum Hafa áhyggjur af áhrifum áforma Carbfix á fasteignaverð

Hafa áhyggjur af áhrifum áforma Carbfix á fasteignaverð

47
0
RÚV – Ragnar Visage

Hafnfirðingar hafa áhyggjur af umhverfisáhrifum, jarðhræringum og áhrifum þeirra á fasteignaverð í tengslum við áform fyrirtækisins Carbfix um umfangsmikla niðurdælingu koltvísýrings í Straumsvík. Fjölmennur íbúafundur var haldinn í fyrrakvöld.

<>

Efnt verður til íbúakosningar um fyrirhuguð áform fyrirtækisins Carbfix í Hafnarfirði ef samningar nást á milli bæjarins og fyrirtækisins. Þetta kom fram á fjölmennum íbúafundi í fyrrakvöld.

Carbfix stefnir á að dæla þremur milljónum tonna af koltvísýringi á ári ofan í jörðina í Straumsvík. Náttúruverndarsamtök og íbúar hafa áhyggjur af áhrifum á umhverfið og óttast aukna jarðskjálftavirkni.

Arndís Kjartansdóttir, sem er Hafnfirðingur, segir að íbúar hafi meðal annars áhyggjur af áhrifum á fasteignaverð.

„Og mögulega kannski vill ekki einhver kaupa húsnæði á Völlunum í staðinn, eða þarna í kring. Það er það sem við höfum líka áhyggjur af. Fyrir utan allt annað, náttúruna, jarðhræringar og grunnvatnið okkar, lífríkið. Það er svo margt sem spilar inn í.“

Ólafur Elínarson, yfirmaður samskiptamála hjá Carbfix, segist skilja að fólki sé umhugað um sitt nánasta umhverfi.

„Við hefðum þurft að gera betur í að halda fundi þar sem eru umræður. Kannski hefur okkar akkilesarhæll verið að við höfum verið of mikið í fræðslu, og við hefðum þurft að taka samtalið.“

Heimild: Ruv.is