Home Fréttir Í fréttum Sprungur komnar í turna brúar yfir Jökulsá á Fjöllum

Sprungur komnar í turna brúar yfir Jökulsá á Fjöllum

125
0
Brýrnar yfir Jökulsá á Fjöllum eru komnar til ára sinna. Hér sést brúin yfir Jökulsá á Fjöllum í Öxarfirði. Aðsend mynd – Vegagerðin

Sprungur eru komnar í steypta turna sem bera uppi brúna yfir Jökulsá á Fjöllum í Öxarfirði og þarf að huga að styrkingum eða viðgerð. Vegagerðin telur að mögulega hafi verið mistök að leyfa flutning á þungum krana yfir brúna í sumar.

<>

Vegagerðin telur að það hafi mögulega verið mistök að leyfa flutning á þungum krana um gamla brú yfir Jökulsá á Fjöllum í sumar. Ekki fékkst leyfi til að flytja kranann til baka og verður siglt með hann í staðinn. Sprungur eru komnar í steypta turna sem bera brúna uppi og huga þarf að viðgerð.

Hver þungaflutningur veikir gamlar brýrnar
„Málið er að nokkrar stórar býr eru þannig að það er ekki hægt að nýta þær að fullu fyrir mjög þunga flutninga og alls ekki fyrir undanþáguflutninga.

Þetta er búið að vera vitað lengi, að brýrnar yfir Jökulsá á Fjöllum, báðar norðan megin og Jökulsá á Breiðamerkursandi eru orðnar gamlar og byggðar fyrir öðruvísi flutninga.

Þær þola illa mikla þungaflutninga og í hvert sinn sem mjög þungur flutningur og hvað þá undanþáguflutningur fer yfir þessar brýr þá hefur það áhrif á þær og veikir þær að einhverju leyti.

Þannig að það þarf að fara mjög varlega með að leyfa undanþágur, segir G. Pétur Matthíasson forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar.

Huga að því að styrkja og laga brúna yfir Jökulsá á Fjöllum
Athygli vakti að sigla þurfti með þungan krana frá Þorlákshöfn til Seyðisfjarðar með viðkomu í Færeyjum.

Hann var fluttur vestur á firði í sumar og þarf að komast aftur til síns heima á Austurlandi. Pétur segir að mögulega hefði aldrei átt að leyfa flutning á krananum yfir brúna á Jökulsá á Fjöllum í Öxarfirði í sumar.

„Í sumar var nú reyndar þarna flutningur sem var mjög þungur og hefði kannski ekki átt að vera leyft að fara með það yfir. Af því að brýrnar eru bara í þannig ástandi. Og í Jökulsá á fjöllum, þar sáust síðasta vetur sprungur aðeins í turnum brúarinnar.

Við erum með hana sem sagt til viðgerðar eða styrkingar, það þarf að skoða það betur. En það er alveg ljóst að í hvert skipti sem mjög þungur flutningur fer yfir brúna þá hefur það einhver áhrif á þessar gömlu brýr,“ segir Pétur.

Uppfært: 08.10.2024 13:20: Í upphaflegri útgáfu var talað um brúna yfir Jökulsá á Fjöllum á þjóðvegi eitt en rétt er að flutningurinn var um neðri brúna í Öxarfirði.

Heimild: Ruv.is