Home Fréttir Í fréttum Niður­staða um Ölfus­ár­brú væntan­leg í þessari viku

Niður­staða um Ölfus­ár­brú væntan­leg í þessari viku

71
0
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra vonar að niðurstaða fáist jafnvel í þessari viku um forsendur Ölfusárbrúar þannig að framkvæmdir gesti hafist sem fyrst á þessu ári. Vísir/Vilhelm

Innviðaráðherra er bjartsýn á að framkvæmdir við Ölfusárbrú geti hafist á þessu ári. Að undanförnu hafi verið leitað leiða til að framkvæmdin standist forsendur fjárlaga þessa árs um að notendagjöld standi undir kostnaði við brúna.

<>

Allt er í raun til reiðu til að hefja byggingu nýrrar ölfusárbrúar en beðið staðfestingar stjórnvalda varðandi fjármögnun. Miðað hefur verið við að gjöld á vegfarendur um brúna á næstu árum standi undir kostnaði við hana. Brúin mun leiða umferð um þjóðveg eitt framhjá Selfossi og létta þar með miklu álagi sem nú er vegna umferðar um núverandi brú og í gegnum aðalgötu bæjarins.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra mætti á fund fjárlaganefndar til að fara yfir helstu verkefni framundan í samgöngumálum.

Hún segir að Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra og hún muni eiga sameiginlegan fund með fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd á morgun til að fjalla sérstaklega um ölfusárbrú. Flestir væru sammála um að gríðarleg þörf væri fyrir nýja brú.

„Við þurfum að sjá til lands með hvaða hætti þetta verður fjármagnað. Það var lagt upp með ákveðið módel. Við þurfum á því að halda að hafa þingið með okkur í hvaða skref verða stigin og hvernig þetta er leyst. Ég vonanst til að við sjáum sérstakan fund um það síðar í þessari viku. Við erum að reyna að finna tíma til fyrir það og þá getum við bara drifið okkur af stað,” segir Svandís.

Áætlaður kostnaður við byggingu Ölfusárbrúar er 14 milljarðar króna. Veggjöld eiga að standa undir kostnaðinum á tilteknum árafjölda.
Vegagerðin

Greiðslumódelið væri eitt af því sem verið væri að skoða. Hjá Seðlabankanum hafi verið uppi efasemdir um að notendagjöld nægðu fyrir kostnaðinum á þeim tíma sem miðað hefði verið við.

„Ég hef stundum sagt að það sé mikilvægt að við missum ekki móðinn í að vera stórhuga og bjartsýn þegar samgönguinnviðir eru annars vegar. Einu sinni lögðum við hringveg og einu sinni lögðum við brýr yfir stórfljót.

Gerðum það af því okkur fannst það vera partur af því að vera almennilegt samfélag. Við megum ekki gleyma þeim rökum þegar við tölum um hvað borgar sig og hvað ekki,” segir innviðaráðherra.

Hún væri því bjartsýn á að framkvæmdir við Ölfusárbrú geti hafist á þessu ári.

Heimild: Visir.is