Home Fréttir Í fréttum Greiða milljón til viðbótar vegna eignarnáms á Efri-Jökuldal

Greiða milljón til viðbótar vegna eignarnáms á Efri-Jökuldal

91
0
Mynd Sigurður Aðalsteinsson

Landeigandi á Efri-Jökuldal sætti sig ekki við tilboð Vegagerðarinnar vegna landnáms 30 metra breiðrar landspildu undir vegsvæði nýs Jökuldalsvegar. Úrskurður matsnefndar í málinu féll í síðasta mánuði þar sem bætur til eigandans voru hækkaðar.

<>

Vegagerðin undirbýr nú að betrumbæta og lagfæra Jökuldalsveg alla leið að áfangastaðnum Stuðlagili en til þess að vel sé þarf að breyta aðeins út af núverandi vegstæði á köflum. Einn slíkur kafli er í landi Langagerðis hvers eigandi er Sigvaldi H. Ragnarsson að Hákonarstöðum.

Honum barst tilboð frá Vegagerðinni síðsumars í fyrra þar sem honum voru boðnar rúmar 4,2 milljónir króna fyrir landspilduna auk malarnáms af svæðinu sem nýta skyldi til vegagerðarinnar þegar þar að kemur.

Tilboð þetta taldi landeigandi fráleitt með öllu enda væri ekki aðeins um eignarnám á landspildunni að ræða heldur og mikið efnisnám, rask á túnum auk almenns rasks meðan á framkvæmdatíma stæði. Gerði landeigandi mótkröfu um rúmlega sextán milljónir í bætur.

Úr varð að matsnefnd eignarnámsbóta var kölluð til vegna málsins sem eftir kynnisferð á umrætt svæði úrskurðaði í lok ágúst að hæfilegar bætur til landeiganda vegna eignarnámsins skyldu vera tæpar 5,2 milljónir króna. Vegagerðinni aukinheldur gert að greiða málskostnað landeigandans, 2 milljónir króna, auk 2,4 milljóna króna í ríkissjóð vegna starfa nefndarinnar.

Unnið hefur verið að nýjum og betri vegi inn að Stuðlagili undanfarin ár en síðasti spottinn er þó eftir og hluti þess spotta ástæða deilnanna sem hér um ræðir.

Heimild: Austurfrett.is