Home Fréttir Í fréttum Smíði Ölfusárbrúar í upp­námi vegna skil­yrðis fyrir ríkis­á­byrgð

Smíði Ölfusárbrúar í upp­námi vegna skil­yrðis fyrir ríkis­á­byrgð

92
0
Hér er brúarstæðið. Nýja brúin er fyrirhuguð um Efri-Laugardælaeyju sem sést hér fyrir miðri mynd. ARNAR HALLDÓRSSON

Smíði nýrrar Ölfusárbrúar er í uppnámi vegna skilyrðis um að gjaldtaka fyrir akstur yfir brúna standi undir kostnaði. Sérfræðingar ríkisábyrgðarsjóðs efast um að dæmið gangi upp. Fjármálaráðherra og innviðaráðherra leita leiða til að koma verkefninu í gang.

<>

Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 en þess hafði verið vænst að samningur um smíði brúarinnar milli Vegagerðarinnar og ÞG verks yrði undirritaður í byrjun sumars. En ekkert gerist og þegar við spurðum fjármálaráðherra fyrir fjórum vikum um hvað væri að tefja málið svaraði hann:

„Það hefur bara verið til gagngerrar skoðunar og samtals núna í sumar og ég vænti nú bara niðurstöðu næstu daga,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson í fréttum Stöðvar 2 þann 27. ágúst síðastliðinn.

Þessir „næstu dagar“, sem ráðherrann nefndi fyrir nærri mánuði, eru orðnir vandræðalega langir, en okkar upplýsingar herma að það sem raunverulega er að tefja málið er að fjármálaráðherranum gengur hægt að sannfæra Seðlabankann um að veggjöld dugi til að borga brúna.

Sú lántökuheimild fjárlaga, sem heimilar ráðherra að undirgangast skuldbindingar vegna útboðs á Ölfusárbrú, setur nefnilega það skilyrði að sérstök gjaldtaka fyrir akstur um brúna skuli standa undir kostnaði.

Skilyrt er í fjárlögum að vegtollur standi undir smíði nýrrar Ölfusárbrúar.
GRAFÍK/SARA RUT FANNARSDÓTTIR

Matið á þessu er í höndum ríkisábyrgðarsjóðs sem heyrir undir Seðlabankann.

Svona svaraði fjármálaráðherra í gær um hvað væri að gerast:

„Við höfum auðvitað verið bara í nánu samtali við Seðlabankann núna um nokkurt skeið, eða sem sagt út af mati ábyrgðarsjóðs á skuldbindingunni. Hvort að allar forsendur séu uppfylltar, hvort að umferðarspáin sé rétt, hvort að sniðgangan verði svona eða meiri og hvaða mótvægisaðgerða sé hægt að grípa til hvað það varðar.

Þetta höfum við bara verið að vinna með innviðaráðuneytinu auðvitað og Vegagerðinni,“ sagði Sigurður Ingi að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra vonast til að botn fáist í málið á næstu dögum eða vikum.

„Þetta er ein af mikilvægustu samgönguframkvæmdum sem við stöndum frammi fyrir. Samfélag sem er á þessum stað, öflugt og ríkt velferðarsamfélag, á að tryggja grunninnviði eins og samgöngur á Suðurlandi og þá þurfum við nýja brú. Ég held að það sé öllum ljóst,“ sagði Svandís í gær.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra fer með vegamál í ríkisstjórninni.
SIGURJÓN ÓLASON

Ráðherrarnir voru spurðir um hvort þeir væru bjartsýnir að ná málinu í höfn:

„Ég held að við í ráðuneytunum getum fundið réttu leiðina til þess að ljúka þessu mikilvæga verkefni. Það er mikilvægt að við finnum leiðir til þess að byggja hérna upp innviði landsins. Þannig að; já, ég er bjartsýnn,“ svaraði Sigurður Ingi.

„Ég er að vona að það geti farið að hreyfast núna á allra næstu vikum. Þannig að við getum farið að sjá það að við ætlum sannarlega að standa við þessa ákvörðun,“ svaraði Svandís.

Heimild: Visir.is

.