Home Fréttir Í fréttum 16,8% færri íbúðir í byggingu en fyrir ári síðan á landsvísu

16,8% færri íbúðir í byggingu en fyrir ári síðan á landsvísu

26
0
Framkvæmdir eru hafnar á 7221 íbúð um allt land í september samkvæmt talningu HMS RÚV – Ragnar Visage

Íbúðum í byggingu fækkaði um 16,8% á landsvísu síðan á sama tíma í fyrra samkvæmt nýjustu talningu HMS. Að mati stofnunarinnar eru of fáar íbúðir í byggingu til að koma í veg fyrir samdrátt í framboði nýrra íbúða.

<>

Alls voru 16,8% færri íbúðir í byggingu í september en á sama tíma á síðasta ári samkvæmt nýjustu mælingum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Að mati stofnunarinnar eru framkvæmdir að hefjast á of fáum íbúðum til að koma í veg fyrir að samdráttur myndist á framboði nýrra íbúða.

Íbúðir á fyrstu tveimur framvindustigum voru þá helmingi færri en í síðustu tveimur talningum HMS.

Samkvæmt talningu HMS voru framkvæmdir hafnar á 7221 íbúð um allt landið í september samanborið við 7937 íbúðir í mars síðastliðnum. Þá voru 8683 íbúðir í byggingu í september árið 2023.

9,7% samdráttur á höfuðborgarsvæðinu
Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði íbúðum í byggingu í öllum sveitarfélögum nema Seltjarnarnesbæ en þar stendur fjöldi þeirra í stað.

Íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu fækkar alls um 536 sem er 9,7% samdráttur á milli talninga. Mest fækkar þeim í Hafnarfjarðarbæ eða um 185 íbúðir. Þar á eftir kemur Garðabær en þar fækkaði íbúðum í byggingu um 144. Í Reykjavíkurborg fækkaði íbúðum í byggingu um 27 á milli talninga.

Verktakar leggja áherslu á að klára verkefni
Íbúðum sem eru á fyrri framvindustigum, áður en þær eru fokheldar, hefur fækkað í síðustu fimm talningum HMS og hafa þær ekki verið færri síðan árið 2021. Þá eru einnig færri íbúðir í byggingu sem standa í stað.

Að mati HMS bendir þetta til þess að verktakar séu frekar að leggja áherslu á að klára þau verkefni sem þegar eru hafin í stað þess að hefja ný.

Út frá talningu HMS er gert ráð fyrir að 3024 íbúðir verði fullbúnar á þessu ári. Það er í samræmi við spá HMS eftir talningu í marsmánuði. Þannig er gert ráð fyrir að 2897 íbúðir verði fullbúnar árið 2025 og 2323 íbúðir árið 2026.

Ekki er þó að ræða um endanlega spá fyrir árið 2026 þar sem framkvæmdir sem hefjast á næstu mánuðum gætu klárast árið 2026 og þannig aukið við fjöldann.

Heimild: Ruv.is