Áform Mosfellsbæjar um efnistöku úr Seljadalsnámu sem er skammt austan Hafravatns vekja litla hrifningu húseigenda á svæðinu og gerir stjórn Félags sumarhúsaeigenda við Krókatjörn, Myrkurtjörn og Silungatjörn ýmsar athugasemdir við umhverfismatsskýrslu verkefnisins sem nú er til umsagnar í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar.
Í umsögn sinni um umhverfismatsskýrsluna segir félagið hana byggða á röngum forsendum og villandi upplýsingum. Að mati stjórnarinnar mun framkvæmdin hafa verulega neikvæð áhrif á hljóðvist, ásýnd náttúrunnar á umræddu svæði, loftgæði og dýralíf ásamt því að leiða til óafturkræfs rasks á náttúru svæðisins.
Efnistaka hefur ekki farið fram í námunni frá árinu 2016, en samkvæmt fyrirliggjandi áformum er ætlunin að vinna allt að 230 þúsund rúmmetra efnis úr námunni á 13 til 19 árum.
Tilgangurinn með efnistökunni er sagður vera að afla fyrsta flokks steinefnis fyrir malbik á höfuðborgarsvæðinu. Frestur til að skila inn umsögnum vegna þessara áforma er til 2. október nk.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is