Home Fréttir Í fréttum Sunnanverðir Vestfirðir sitja eftir í samgöngumálum

Sunnanverðir Vestfirðir sitja eftir í samgöngumálum

23
0
Þó framkvæmdum sem bæta veginn yfir Dynjandisheiði sé að ljúka er enn malarkafli milli fjallvegarins og Dýrafjarðarganganna. – Gréta Sigríður Einarsdóttir

Slæmar samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum bitna á iðnaði, ferðaþjónustu og velferð íbúa. Frost er í útboðum á vegaframkvæmdum, viðhaldsfé skortir og framkvæmdir eru aftarlega á forgangsröðun í samgönguáætlun.

<>

Slæmir vegir hamla ferðalögum milli þéttbýliskjarna í Vesturbyggð, til Ísafjarðar og Reykjavíkur og vinsælla áfangastaða ferðamanna. Sveitarstjóri segir slæmar samgöngur ekki aðeins bitna á iðnaði og ferðaþjónustu, þær séu líka jafnréttismál.

Óvíst hvenær framkvæmdir í Gufudalssveit klárast

Enn er óvíst hvort farið verði í útboð á brúargerð í Gufudalssveit í ár, segir Gerður Björk Sveinsdóttir, sveitarstjóri Vesturbyggðar. Fyrirhugaðar framkvæmdir eru hluti af stærri aðgerðum til að stytta aksturstíma og auka öryggi á veginum meðfram norðanverðum Breiðafirði. Búið er að þvera Þorskafjörð og gera veg gegnum Teigsskóg.

Í sumar hafa staðið yfir framkvæmdir við sitt hvorn endann á fyrirhugaðri brú en óvíst er hvenær hægt verður að hefjast handa við sjálfa framkvæmdina. Á meðan þarf að nota gamla veginn. „Við erum að keyra Ódrjúgshálsinn sem er bara illfær malarvegur erfiður yfirferðar. Þetta eru stórir trailerar að keyra með þunga eftirvagna og þetta er áhyggjuefni.

Leiðin til Ísafjarðar ókláruð

Fleiri fyrirhugaðar vegaframkvæmdir á svæðinu eru í biðstöðu. „Eins er náttúrlega vegurinn yfir Dynjandisheiði, þar eru náttúrlega 7 kílómetrar eftir og við vitum ekki hvenær það verður boðið út.“

Dýrafjarðargöngin styttu leiðina milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar til muna en vegurinn um Dynjandisheiði er erfiður yfirferðar á veturna. Framkvæmdum við veginn yfir heiðina sjálfa er að ljúka en þá standa eftir nokkrir kílómetrar af hlykkjóttum malarvegi að Dýrafjarðargöngum.

Sá vegur er hluti af leiðinni milli sunnanverðra og norðanverða Vestfjarða. Hann er illfær á veturna og eingöngu sinnt á virkum dögum. Gerður segir að þrýsta þurfi á fjármagn frá stjórnvöldum.

Hluti af þessum verkefnum sé á samgönguáætlun og ætti að vera lokið. „Við fáum náttúrlega bara þau svör að það séu öll verkefni í frosti, að það séu einfaldlega ekki til peningar. Þau segja að það sé ekkert útséð með það hvort þetta verði boðið út á þessu ári eða næsta og eiginlega bara algjör óvissa.“

Þungaflutningar um viðkvæma fjallvegi sem gætu farið styttri leið

Þá skortir viðhald á vegi milli Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Bíldudals. Gerður bendir á að mikil verðmæti eru flutt um fjallvegi milli Bíldudals, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar þó svo að það sé í raun óþarfi,

„Þar sem það er vegur frá Bíldudal upp Trostansfjörðinn og upp að Dynjandisheiði sem er líka á samgönguáætlun. Við höfum lagt mikla áherslu á að verði kláraður og mikið eðlilegra að sú leið sé farin.“ Sá vegur er malarvegur sem ekki er mokaður á veturna.

Vegurinn um Mikladal kom illa undan vetri.
– Gréta Sigríður Einarsdóttir

Íbúar langeygir eftir Suðurfjarðagöngum

Sveitarfélagið hefur einnig kallað eftir göngum. Suðurfjarðagöng eru á samgönguáætlun en mjög aftarlega í forgangsröðun. Ekki er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fyrr en 2043 í jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar. Næstu göng sem gert er ráð fyrir á Vestfjörðum eru Álftafjarðargöng milli Súðavíkur og Ísafjarðar.

Gerður segir einsdæmi að keyrt sé yfir svo illfarna fjallvegi innan sama sveitarfélags. Heimastjórnir Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Arnarfjarðar hafa allar tekið fyrir mikilvægi þess að flýta fyrir gangnagerð á fundum. Þá benda Bílddælingar á að sjúkra- og slökkviliðsbílar eru jafnan staðsettir á Patreksfirði og þaðan eru 30 mínútur á Bíldudal við bestu mögulegu aðstæður.

Vegir á vinsæla ferðamannastaði einnig í ólestri

Þá eru ótaldir vegir sem veiti ferðamönnum þjónustu, svo sem út að Látrabjargi, á Rauðasand og út í Selárdal þar sem verulegra úrbóta er þörf. Ferðaþjónustuaðilar hafa oft bent á erfiðleikana sem þetta veldur greininni.

Árið 2026 verður sólmyrkvi sem á að sjást vel frá Látrabjargi og ferðaþjónustan á svæðinu er uppbókuð um það leyti. Ýmsir hafa bent á að vel færi á því að vegurinn yrði lagaður áður en þar að kemur. Gerður segir áköll um úrbætur á þessum stöðum einfaldlega verða undir því svo mörg aðkallandi verkefni hafi forgang. „Hvar á að forgangsraða og hvar eigum við að setja áhersluna því þetta er allt brýnt?“ segir Gerður.

Samgöngubætur eru jafnréttismál

Slæmar samgöngur hamli ekki aðeins iðnaði, ferðaþjónustu og heilbrigðisþjónustu, þær geti líka verið jafnréttismál. „Það hefur bara sýnt sig í könnunum að konur veigra sér frkear við því að keyra yfir vegi sem þessa.“ Þær setji slæmar samgöngur frekar fyrir sig þegar þær horfa til búsetu.

Gerður segir ástandið afleiðingu margra ára vanrækslu. „Við sátum bara eftir í mörg mörg mörg ár þar sem engar framkvæmdir áttu sér stað, engar sem litlar og þar af leiðandi sat þessi landshluti eftir í vegaframkvæmdum.“

Heimild: Ruv.is