Home Fréttir Í fréttum Dynjandisheiði: Verktakinn búinn og farinn að flytja vélar og vinnubúðir af svæðinu

Dynjandisheiði: Verktakinn búinn og farinn að flytja vélar og vinnubúðir af svæðinu

114
0
Nýi vegurinn endar við Dynjandisá. Þaðan eru um 6,5 km að nýja veginum í Dynjandisvoginum. Mynd: BB.is

Guðmundur Ólafsson, verkefnastjóri hjá Suðurverk sagði í samtali við Bæjarins besta að verkinu á Dynjandisheiði væri lokið og byrjað væri á því að flytja burtu tæki og vinnubúðir af heiðinni. Vegagerðin hefði samið við Suðurverk um að bæta 800 metrum við útboðsverkið til þess að enda það betur en meira yrði ekki gert.

<>

G. Petur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að ekki verði farið í þriðja áfanga Dynjandisheiðar án útboðs. Vegagerðin bíði eftir því að samgönguáætlun verði lögð fram á Alþingi og rædd aftur.

Vesturbyggð: áhyggjur af stöðu mála

Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að sveitarfélagið hafi ekki nýlegt sent erindi til stjórnvalda varðandi framkvæmdir á Dynjandisheiði. En bæjaryfirvöld í Vesturbyggð hafi hins vegar miklar áhyggjur af stöðu mála þar, sem og stöðu annarra framkvæmda í fjórðungnum.

„Þetta á við bæði um framkvæmdir á Dynjandisheiði og framkvæmdir við brýr í Gufudal og Djúpadal, en ekkert hefur einnig heyrst af útboðsmálum á þeim stöðum. Einnig höfum við áhyggjur af því að framkvæmdir niður Trostansfjörð dragist enn frekar en áætlað var.“ segir Gerður.

Ísafjarðarbær: kalla eftir upplýsingum

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi vegagerð á Dynjandisheiði á fundi sínum á föstudaginn að beiðni Jóhanns B. Helgasonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Bókað er að í Samgönguáætlun 2020-2034 sé gert ráð fyrir að ljúka við heiðina á fyrsta tímabili. Þá hafi framkvæmdaleyfi frá Ísafjarðarbæ legið fyrir síðan á fyrsta fundi bæjarstjórnar í janúar á þessu ári.

Ísafjarðarbær óskar eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um stöðu mála á 3ja áfanga Dynjandisheiðar.

Síðasta kaflinn á Dynjandisheiði er um 6,5 km langur kafli frá Dynjandisá í Dynjandsivog. Fram kemur í fundargerð bæjarráðs Ísafjarðarbæjar að gert sé ráð fyrir að kostnaður við þennan sé um 1,5 milljarðar króna.

Heimild: BB.is