Vegagerð er hafin í nýju atvinnuhverfi sem mun rísa við Vesturlandsveg á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar.
Svæðið tilheyrir Blikastaðalandi í Mosfellsbæ þar sem fyrirhuguð er umfangsmikil uppbygging nýs íbúðahverfis.
Reitir fasteignafélag er eigandi þróunarsvæðisins og fer fyrir uppbyggingunni. JYSK hefur undirritað viljayfirlýsingu við Reiti um kaup á lóðum á svæðinu og Bónus hefur undirritað viljayfirlýsingu um nýtt verslunarhúsnæði í hverfinu undir rekstur matvöruverslunar, að því er kemur fram í tilkynningu.
Korputún er skipulagt út frá þörfum fólks og náttúrunnar en ekki síður út frá hefðbundnum þáttum, þar á meðal aðgengi, vöruflutningum og sýnileika. Samgönguás Borgarlínu mun liggja í gegnum skipulagssvæðið með Borgarlínustöð við verslunarkjarna svæðisins.
Forsvarsmenn Bónuss hafa lýst yfir vilja til þess að verslun félagsins verði þar kjölfesta til framtíðar. Í verslunarkjarnanum verða jafnframt til leigu veitingarými og húsnæði fyrir aðra hverfisverslun og þjónustu.
Þá hefur lagerinn Iceland, sem er móðurfélag JYSK á Íslandi, undirritað viljayfirlýsingu við Reiti um kaup á lóðum þar sem gert er ráð fyrir ríflega 17 þúsund fermetra byggingarmagni.
Þar hyggst félagið byggja nýjar höfuðstöðvar ásamt vöruhúsi og verslun fyrir JYSK. Jafnframt er gert ráð fyrir plássi fyrir aðrar verslanir á lóðinni auk skrifstofu- og þjónusturýmis, að því er segir í tilkynningunni.
Reiknað er með að í hverfinu verði bæði tilbúið og klæðskerasniðið leiguhúsnæði í boði ásamt möguleika á að kaupa lóðir til uppbyggingar.
„Höfuðborgarsvæðið er í mikilli þróun, ekki síst í norður- og austurhluta þar sem m.a. mun rísa byggð í Blikastaðalandinu og svo Keldnaholti þegar fram líða stundir. Þetta mun auka enn frekar þörf fyrir verslun og þjónustu á svæðinu. Korputún leikur mikilvægt hlutverk í þessari uppbyggingu með blómlegu atvinnulífi í nýju og vönduðu hverfi enda verður nýja atvinnuhverfið gífurlega vel staðsett og býður mikil tækifæri fyrir ólíka aðila.
Á sama tíma erum við mjög stolt af því að Korputún verði fyrsta atvinnuhverfið á landsvísu sem er skipulagt samkvæmt kröfum BREEAM Communities vistvottunarstaðalsins.
Við skipulag hverfisins var lögð mikil áhersla á að lágmarka rask á vatnsmagni sem rennur í Korpu og unnin var vönduð viststefna fyrir hverfið. Neðst í landinu, nálægt Korpu, er fallegt svæði með miklu dýralífi sem mikilvægt er að vernda,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita, í tilkynningunni.
Heimild: Mbl.is