Í gær var merkilegur áfangi í sögu Þingeyjarsveitar þegar nýtt stjórnsýsluhús á Laugum var formlega tilbúið. Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri fékk lyklana afhenta við óformlega athöfn í haust blíðunni.
Húsið mun hýsa skrifstofu sveitarfélagsins og þar verða einnig rými sem fyrirtæki, stofnanir og einyrkjar geta nýtt sér. Vonast er til þess að húsið verði iðandi af lífi, suðupottur hugmynda og verkefna þar sem allir eru velkomnir.
Við hönnun á breytingum hússins var lögð mikil áhersla á að skapa nútímalega, vistvæna og aðlaðandi aðstöðu fyrir íbúa, starfsfólk og gesti sveitarfélagsins. Með þessu nýja stjórnsýsluhúsi er stigið stórt skref í átt að betri þjónustu og aukinni skilvirkni í rekstri sveitarfélagsins.
Mikil þátttaka í nafnasamkeppni
Sveitarfélagið bauð nýverið öllum íbúum að leggja fram tillögur að nafni á nýja húsið, og það er ánægjulegt að tilkynna að þátttakan fór langt fram úr væntingum.
Fjöldi frambærilegra tillagna barst, og verður sannarlega ekki auðvelt verk að velja nafn. Þingeyjarsveit þakkar kærlega fyrir þátttökuna og frumlegar tillögur, sem endurspegla sterkan samhug og áhuga íbúa á þessu mikilvæga verkefni.
Opnunarhátíð framundan
Nafn hússins verður kynnt við formlega opnun þess, sem verður í haust þegar öllum íbúum verður boðið að koma og skoða nýju aðstöðuna.
Heimild: Þingeyjarsveit