Ámundi Brynjólfsson, skrifstofustjóri á skrifstofu framkvæmda og viðhalds á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, segir að hugmyndin sé að kynna áætlun um framkvæmdir í þremur skólum í Laugardal í Reykjavík í október.
Ekki verði þó farið af stað í framkvæmdir í Laugarnesskóla, Langholtsskóla og Laugalækjarskóla nema fjármagn verði tryggt fyrir öllum framkvæmdum.
Hann segist efast um að starfsmaður af umhverfis- og skipulagssviði hafi gert lítið úr veikindum kennara en eins og fram kom á mbl.is í gær hafa tugir kennara þurft að fara í veikindaleyfi eða hætt í skólanum vegna veikinda sem tengjast mygluvandamálum í skólanum.
Ekki einsdæmi hjá okkur
Nú hefur legið fyrir í áratug að þörf er á miklum viðhaldsframkvæmdum í Laugarnesskóla vegna mygluvandamála og athugun EFLA staðfesti rakavandamál síðast árið 2022. Borgin hefur sagst ætla að flytja nemendur úr skólanum 2025. Hvers vegna tekur svona langan tíma að bregðast við?
„Þegar svona kemur upp í upphafi þá er verkefnið eilítið ófyrirséð, hvað verið er að fara út í. Það er rétt að hægt er að halda því fram að það hefði verið hægt að viðhalda þessu húsnæði betur í gegnum tíðina. Svo verður einhver vakning um aðstæður eða innivist í skólahúsnæði almennt. Það er ekkert einsdæmi hjá Reykjavíkurborg, heldur einnig í húsnæði í öðrum sveitarfélögum og á vettvangi ríkisins,“ segir Ámundi.
En nú er skýrsla sem fram kemur fyrir 7-8 árum sem lýsir miklum vanda í húsnæðinu. Hvað veldur því að málin eru ekki tekin föstum tökum. Er þetta fjármagnsleysi eða skipulagsleysi?
„Það er brugðist strax við og fyrsta skýrslan kemur þótt ekki sé allt húsnæðið tekið í einu. Það er ekki fyrr en árið 2022 sem kemur í ljós að þarf að flytja starfsemina alla til að fara í heildarendurbætur á skólanum þannig að aðstæður séu í lagi. Það gerist ekki nema með því að flytja starfið í burtu á meðan,“ segir Ámundi.
Að sögn hans liggur ekki fyrir hve langan tíma það mun taka að taka skólann í gegn. Skólahald verður á meðan í flytjanlegum kennslustofum sem verða að stærstum hluta staðsettar á bílastæðinu við Laugardalsvöll.
Tímasett áætlun
Ætlunin er að kynna tímasetta áætlun um framkvæmdir í þremur skólum í Laugardal í október að sögn Ámunda. Hann segir hugmyndina að nota færanlegu kennslustofurnar einnig fyrir nemendur Langholtsskóla og Laugarlækjaskóla í framhaldi af framkvæmdum í Laugarnesskóla.
„Þetta plan sem við ætlum að reyna að kynna í október, verður tímasett áætlun. Grundvöllurinn af því að það gangi eftir er sá að fjármagn fáist til verkefnisins. Hluti af undirbúningnum er að áætla hvað þetta mun kosta og tryggja fjármagnið,“ segir Ámundi.
Ekki farið af stað nema fjármagn liggi fyrir
Nú er þetta samspil pólitíkur, forgangsröðunar og skipulags sem þarf að huga að. Er flókið að fjármagna svona hluti og þurfið þið sem eruð í borgarkerfinu að sannfæra kjörna fulltrúa um að forgangsraða svona framkvæmdum umfram aðrar?
„Nei, ég held að allir séu meðvitaðir um mikilvægi þess að fara í þessar framkvæmdir. En þetta þarf að passa inn í heildarmyndina. Fyrir okkur er bara nauðsynlegt að fara ekki af stað nema búið sé að tryggja fjármagnið. Og þá ekki bara til eins árs heldur þess tíma sem framkvæmdirnar munu taka. Það er alveg skýr og klár pólitískur vilji til að fara í þetta. Það á við um alla skólana þrjá í hverfinu,“ segir Ámundi.
Ekki frá umhverfis og skipulagssviði
Nú hefur fjöldi kennara kvartað undan heilsubresti sem nær allt að 20 ár aftur í tímann. Í grein á mbl.is segja kennararnir að fulltrúi frá borginni hafi tjáð efasemdir um að veikindi þeirra væru vegna myglu í Laugarnesskóla. Þekkir þú til þess að þetta hafi verið viðkvæðið frá starfsmanni borgarinnar á fundi með kennurum?
„Ekki kannast ég við það og get ekki ímyndað mér það. Við höfum engar forsendur til að meta heilsufar fólks. Það hafa borist kvartanir um slæman aðbúnað og við bregðumst bara við með því að skoða hvort laga þurfi húsnæðið. Ég hef litla trú á að einhver af umhverfis- og skipulagssviði hafi sagt eitthvað í þessa veru,“ segir Ámundi.
Heimild: Mbl.is