Gerðardómur hefur úrskurðað að Kópavogsbær hafi verið í rétti þegar hann rifti samningi við verktakafyrirtækið Rizzani de Eccher eftir að upp komu gallar á verki verktakans við uppbyggingu á Kársnesskóla.
Ákvörðun um að rifta samningi við verktakafyrirtækið í júní á síðasta ári var gagnrýnd af bæjarfulltrúum innan minnihluta bæjarstjórnar Kópavogs, meðal annars sökum þess að riftunin gæti kallað á skaðabótaskyldu.
Nú er ljóst að ákvörðunin var lögmæt og er verktakafyrirtækinu gert að greiða málskostnað Kópavogsbæjar upp á rúmlega 44 milljónir króna.
Verktakinn sýndi ítrekað vilja- og getuleysi
Í dómnum segir að verktakinn hafi borið ábyrgð á stórfelldum og ítrekuðum töfum á verkframkvæmdunum við byggingu Kársnesskóla.
Þá kemur fram að verktakinn hafi sýnt ítrekað vilja- og getuleysi til að bæta úr viðvarandi skorti á mannafla og bæta úr gæðafrávikum.
„Jafnframt að veruleg frávik hafi verið í gæðum verksins sem lýstu sér fyrst og fremst í miklum raka og myglu, sem búið var að loka inni á stöðum í byggingunni sem ekki var hægt að hreinsa, nema með því að rífa upp allan frágang á þeim stöðum.
Í skilningi 3. mgr. 12. gr. verksamnings aðila var hér um að ræða bæði stórfelldar og ítrekaðar vanefndir af hálfu varnaraðila [verkatans], sem samkvæmt gögnum málsins sýndi ítrekað vilja- og getuleysi til að bæta úr viðvarandi skorti á mannafla og bæta úr gæðafrávikum, þótt honum hafi ítrekað verið gefinn kostur á því og krafinn um það,“ segir í úrskurðinum.
Oddviti Viðreisnar var á móti riftuninni
Eins og fyrr segir þá var riftunin ekki óumdeild og oddviti Viðreisnar í Kópavogi, Theodóra S. Þorsteinsdóttir, hafnaði því að veita bænum heimild til riftunar.
„Ég hafnaði heimild til riftunar því eins og málum er háttað tel ég það betri kost að reyna til þrautar að viðhalda samningssambandi við verktakann á grundvelli verksamnings,“ sagði Theodóra í samtali við Morgunblaðið í maí á síðasta ári.
Eini kosturinn í stöðunni var að rifta
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, sagði í samtali við mbl.is í síðasta mánuði að það hafi verið eini kosturinn í stöðunni að rifta samningnum.
„Húsið lá undir skemmdum, lítil sem engin framvinda var á verkstað og verktakinn stóð ekki í skilum við undirverktaka sem voru farnir af verkstað. Það kom aldrei til greina að bjóða skólabörnum upp á nýtt skólahúsnæði sem ekki stæðust okkar gæðakröfur.“
Heimild: Mbl.is